Fréttir


Fréttir

Garðyrkju- og umhverfisstjórn rædd á alþjóðlegri ráðstefnu

2.8.2018

Alþjóðleg ráðstefna, Parks and Nature Congress, fer fram í Hörpu 15.–17. ágúst næstkomandi. Magnús Bjarklind, starfsmaður EFLU, verður með erindi á föstudeginum um skrúðgarðyrkju. 

  • Magnús Bjarklind
    Magnús Bjarklind að störfum.

Að ráðstefnunni standa félagasamtök garðyrkju- og umhverfisstjóra á Norðurlöndunum. SAMGUS á Íslandi, samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga, sér um skipulagningu viðburðarins en ráðstefnan er haldin árlega í einu af aðildarlöndunum. 

Áherslur Íslands í málaflokknum

Umfjöllunarefni ráðstefnunnar í ár er náttúran, umhverfi, almenningsgarðar og græn svæði með áherslu á sjónarmið Íslands í málaflokkunum. Einnig verður fjallað um hvernig mannfólkið getur lifað í sátt og samlyndi við umhverfið, hvaða áhrif gjörðir okkar, t.d. aukning ferðamanna, hafa á náttúruna og umhverfið og hvernig hægt er að bregðast við og draga úr neikvæðum áhrifum þess. Græn svæði í þéttbýli, sjálfbær þróun og stefnumótun til framtíðar verða einnig rædd.

Menntun og þjálfun starfsfólks

Fyrirlestur Magnúsar Bjarklind, Urban Landscaping - As Taught by Nature. Natural habitats as a basis for Nordic cooperative approach to landscape construction training, fjallar um breyttar áherslur í menntun og þjálfun starfsmanna á sviði skrúðgarðyrkju.

Aukin samvinna

Ráðstefnunni er ætlað að vera faglegur vettvangur til að stuðla að vöxt og þróun í umhverfisverkefnum stjórnvalda og annarra hagsmunaaðila. Viðburðurinn er liður í að auka þekkingu og styrkja samvinnu við sambærilegar stofnanir á Norðurlöndum og á alþjóða vísu.

Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á vef ráðstefnunnar og upplýsingar um þjónustu EFLU á sviði landslags- og garðyrkjutækni má sjá á vefnum.