Gegnubrot í Óshlíðargöngum
EFLA hefur séð um framkvæmdaeftirlit í Óshlíðargöngum, á leiðinni milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.
Mánudaginn 15. nóvember kl. 13:30 var brotið í gegn í göngunum.
Einungis 6 metrar voru eftir ógrafnir og átti að sprengja stuttan kafla en skilja eftir 4 metra þykkt haft fyrir hið formlega gegnumbrot þann 28. nóvember.
Það fór þó ekki betur en svo að efri hluti stafnsins, sem grafin er í veiku setlagi, brotnaði og opnaðist á milli.
Var í framhaldi af því ákveðið að klára gröftin og styrkja bergið svo hætta stafaði ekki af frekara hruni.
Þetta var þó ekki síðasta sprengingin í göngunum, því eftir er að búa til neyðarútskot.
Nú hefur tekið við vinna að endanlegum styrkingum ganganna, ásamt vatnsvörnum, vegagerð og uppsetningu rafbúnaðar.
Utandyra er unnið við vegfyllingar í Hnífsdal ásamt frágangsvinnu við brú yfir Langá í Hnífsdal og vegskálana beggja vegna gangamunnana.