Hljóðvist: EFLA hlýtur styrk
Kannanir sýna að víða er hljóðvist ábótavant í vistvænum byggingum.
Þar sem slíkar byggingar verða ?það sem koma skal? er mjög mikilvægt að sjá til þess að hljóðvist í þeim fari ekki aftur miðað við framþróun undanfarinna ára.
Góð hljóðvist í byggingum hefur mikil áhrif á heilsu og líðan notenda. Stjórn Íbúðalánasjóðs samþykkti á fundi 3. september sl. að veita 19 styrki til tækninýjunga og annarra umbóta í byggingariðnaði.
Þeirra á meðal er myndarlegur styrkur til hljóðvistarsviðs EFLU.
Verkefnið felst í að kanna hljóðvist í vistvænum byggingum, hvað felst í vistvænni hljóðvistarhönnun og finna um leið leiðir til að auka vægi hljóðvistar í vistvænum vottunarkerfum.
Markmiðið er að efla hljóðvistarþróun sem fylgir vistvænum byggingum og gera hljóðvist hátt undir höfði við vistvæna vottun.
Meðal annars á að fara yfir rannsóknarniðurstöður sem sýna með skýrum hætti áhrif góðrar hljóðvistar á heilsu og vellíðan í nokkrum gerðum bygginga.
Má þar nefna góð áhrif á talskilning, aukin afköst og færri mistök í starfi. Einnig verða lagðar fram skýrar tillögur um hvernig haga beri hljóðvist í vistvænum byggingum.
Verkefnisstjóri er Guðrún Jónsdóttir verkfræðingur hjá EFLU.
Verkefnið verður unnið í samstarfi við Reykjavíkurborg og styrkt af borginni, Framkvæmdasýslu ríkisins og Íbúðalánasjóði.
Styrkir Íbúðalánasjóðs voru afhentir þann 13. október.