Fréttir


Fréttir

Höfuðstöðvar EFLU fá BREEAM vottun

24.3.2013

Höfuðstöðvar EFLU verkfræðistofu er fyrsta endurgerða byggingin á Íslandi sem hlýtur BREEAM vottun. BREEAM er alþjóðleg vottun á sjálfbærni bygginga og er samanburðarhæf um allan heim. Byggingin er í eigu Reita fasteignafélags og leigir EFLA húsnæðið.
  • Breeam vottun EFLU
Höfuðstöðvar EFLU voru áður húsnæði Tækniháskólans, en því var síðan breytt í skrifstofuhúsnæði þar sem sjálfbærni var höfð að leiðarljósi í öllu ferlinu. Þegar EFLA stóð frammi fyrir því að flytja saman starfsemi fyrirtækisins undir eitt þak lá það beint við að endurgerðin á húsnæðinu myndi vera gerð í þeim anda að fá sjálfbærnivottun á framkvæmdina. Mikið hefur verið lagt upp úr gæðavottunum hjá EFLU, sem dæmi er EFLA fyrsta verkfræðistofan sem fékk gæða-, umhverfis- og öryggisvottun samkvæmt alþjóðlegu stöðlunum ISO 9001, ISO 14001 og OHSAS 18001.

BREEAM er virt vottunarkerfi um allan heim og samanstendur af níu flokkum; heilsu og vellíðan, umhverfis- öryggis- og gæðastjórnun, orku, samgöngum, vatni, byggingarefnum, mengun, úrgangi og landnotkun og vistfræði lóðar. Það getur verið flókið verkefni að ná háu skori í endurgerð bygginga þar sem ýmsir þættir eru þegar fastir. EFLA verkfræðistofa og Reitir telja að afar vel hafi tekist til í þessu verki sem fékk einkunnina ?Very Good+" í vottunarferlinu.

Hér að neðan eru dæmi um atriði sem horft var til:

  • Áhersla var lögð á góða innivist sem meðal annars samanstendur af hljóðvist, lýsingu og loftgæðum. Sýnt hefur verið fram á að góð innivist skili sér í betri afköstum og minni fjarveru frá vinnu.
  • Fylgst er náið með orkunotkun ólíkra notkunarþátta svo sem loftræstingar, lýsingar og annars búnaðar. Mælingar gefa upplýsingar um hvar hægt er að draga úr orkunotkun. Þetta nýtist allt inn í grænt bókhald EFLU verkfræðistofu.
  • Á framkvæmdartímanum var lagt upp úr góðri umhverfis- og öryggisstjórnun.
  • Allt það sem tekið var út úr byggingunni var flokkað og Reitir hafa haldið því til haga.
  • Valið var sérstakt gólfteppi og lím undir teppið sem hefur áhrif á loftgæði. Málning og lakk var einnig sérstaklega valið.
  • Lóðin var endurhönnuð og er nú öruggari fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Bílastæðum var snúið og þeim fækkað um 59 til að bæta aðgengi. Plantað var trjám og hannað vistvænt ofanvatnskerfi.
  • Hluti af vottunarferlinu er samgöngustefna EFLU. Með henni hefur hefur tekist að draga markvisst úr notkun einkabíla og starfsfólki auðveldað að koma hjólandi eða gangandi til vinnu. Boðið er upp á innigeymslu fyrir reiðhjól, viðgerðarverkstæði, kynjaskipta sturtuaðstöðu, skápa fyrir föt og þurrkskáp. Einnig hefur EFLA sett upp Crossfit aðstöðu fyrir starfsmenn.

Arkitektar voru VA arkitektar, landslagsarkitektar voru Landslag ehf og EFLA verkfræðistofa sá um alla verkfræðiráðgjöf, hönnun sem og allt vottunarferlið gagnvart BRE global. Nú stendur yfir hönnunarsamkeppni þar sem leitað er vistvænna lausna á endurhönnun svæðisins á Höfðabakka í heild.

Sjá nánar heimasíðu BRE global