Fréttir


Fréttir

Hönnun lokið á vegarkafla í Noregi

2.3.2017

EFLA lauk nýverið við hönnun á hluta af Fv710 í sveitarfélaginu Bjugn í Suður Þrændalögum í Noregi. Fv710 er tæplega 40 km langur vegur og er frá Brekstad að Krinsvatnet og var verið að uppfæra hann í takt við nýja vegastaðla.
  • Vegur
    Vegkafli við Fv.710 í Bjugn, Suður Þrændalögum.

Göngu- og hjólastígar betrumbættir

EFLA sá um hönnun á göngu- og hjólastíg meðfram hluta af veginum ásamt lagfæringu og færslu á veginum að hluta. Einnig var núverandi veglýsing uppfærð að hluta og lýsing fyrir göngu- og hjólastíginn hönnuð. EFLA sá að auki um hönnun ofanvatns- og afvötnunarkerfis fyrir göngu- og hjólastíginn og lagfæringar á ofanvatnskerfi vegarins þar sem þess var kostur.

Vegarkaflarnir sem EFLA sá um að hanna voru þrír aðskildir hlutar á veginum, alls um 5 km langir, og lágu kaflarnir bæði í gegnum byggt og óbyggt svæði. Verkið var hluti af stærra verkefni sem EFLA hefur unnið að allt frá 2014 og felur í sér vegabætur á þessu sama svæði. Segja má því að þessi vegarkafli hafi verið lokahnykkurinn í þeim efnum.

Rammasamningur við norsku vegagerðina

 EFLA er með rammasamning við norsku vegagerðina (Statens Vegvesen - Region Midt) og var verkefnið hluti af þeim samningi. Hönnunarvinna vegna vegarkaflanna hófst sumarið 2016 og lýkur nú í mars með útboði framkvæmda. Áætlaður heildarkostnaður vegna framkvæmdanna er um 140 milljónir NOK eða um 2 milljarðar ISK. Hönnunarkostnaður EFLU var um 2 milljónir NOK eða í kringum 27 milljónir ISK á núverandi gengi.