Hugmynd um gerð ísganga í Langjökli
Þar niðri er ráðgert að grafa út hella og fleiri göng og skapa þannig spennandi áfangastað fyrir ferðamenn til að skoða og fræðast í leiðinni um íslenska jökla, rannsóknir á þeim og áhrif hlýnunar andrúmsloftsins á jöklana.
Hugmyndin kemur í grunninn frá ferðaþjónustuaðilum sem gera út á Langjökli en þeir hafa fundið fyrir áhuga ferðamanna á að geta skoðað jökulinn á annan hátt en að ganga á yfirborði hans. Ísgöng fyrir ferðamenn hafa verið gerð á nokkrum stöðum í heiminum en ekki svo umfangsmikil eða í svo stórum hveljökli sem Langjökull er svo vitað sé. Leitast verður við að skapa sem náttúrlegast yfirbragð og bjóða þannig ferðamönnum upp á ævintýri sem er meira í ætt við hellaferð en þau göng sem gerð hafa verið áður, þar sem yfirbragðið er meira manngert.
Undirbúningur verkefnisins hefur staðið yfir með hléum í rúm tvö ár í samráði við ýmsa aðila svo sem sveitarfélagið Borgarbyggð, landeigendur, jöklafræðinga Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands sem og stofnanir á við Orkustofnun, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun, sem hafa með málið að gera frá ýmsum hliðum. Lögð hefur verið rík áhersla á að eiga samráð við alla helstu hagsmunaaðila og að bæði öryggis- og umhverfismál séu vel skoðuð. Ákveðið var að sækja um öll nauðsynleg leyfi til að hefja megi framkvæmdina og liður í því var að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar og kanna hvort framkvæmdin teldist matsskyld. Í því ferli hafa umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verið metin gróft nema að möguleg áhrif á grunnvatn hafa verið skoðuð rækilega. Ákvörðun Skipulagsstofnunar liggur ekki fyrir en hennar er að vænta á næstu vikum. Ef framkvæmdin er ekki talin hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þarf að afla framkvæmdaleyfis frá Borgarbyggð og starfsleyfis frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.
Ef öll leyfi fást og nægilegt fjármagn fæst í verkefnið frá fjárfestum er ætlunin að ráðast í fyrsta áfanga framkvæmdarinnar, sem felst í gerð allt að 300 m langra láréttra ganga. Tilgangur þessara ganga er að athuga ýmis atriði sem snúa að jöklinum sjálfum svo sem hvernig heppilegast er að grafa, hve miklar hreyfingar eru í ísnum og hvernig ísinn lítur út. Endanleg útfærsla ganga og hella fyrir ferðamenn mun byggja á niðurstöðum athugana í þessum fyrsta áfanga en miðað er við að ferðamennirnir fari um önnur göng sem munu liggja í hlykkjum niður í móti. Láréttu göngin verði neyðarútgangur og þjónustugöng í endanlegri útfærslu.
Með þessu verkefni vill EFLA vinna að nýsköpun í ferðaþjónustu og taka þannig virkan þátt í þessari vaxandi atvinnugrein, en mikið hefur verið kallað eftir nýjungum í afþreyingu fyrir ferðamenn, sérstaklega yfir vetrartímann. Jafnframt hefur verkefnið nýsköpunargildi á sviði verkfræði en mjög lítið er til skrifað um gröft í jökulís þótt fyrirséð sé að aukin ásókn í jarðefnavinnslu á norðlægum slóðum kalli á aukna þekkingu á þessu sviði. Verkefnið er þannig áhugavert á marga vegu, hvort sem er út frá ferðaþjónustu, verkfræði eða jöklarannsóknum.