Fréttir


Fréttir

Fjölmennt á EFLU-þingi á Akureyri

8.6.2018

Fimmtudaginn 7. júní fór fram EFLU-þing í Hofi á Akureyri og var fjallað um áhrif innivistar í byggingum á líðan fólks. Málþingið var afar vel sótt og voru um 80 gestir samankomnir. Starfsmenn EFLU sem starfa við ráðgjöf á sviðinu fluttu erindi og sköpuðust áhugaverðar umræður um málefnið meðal fundargesta. 

Innivist er samnefnari yfir marga samverkandi þætti bygginga s.s. loftgæði, efnisval, raka, hljóðvist, lýsingu og fleira sem hafa áhrif á líðan fólks. Það er því að mörgu að huga að þegar kemur að góðri innivist í húsum.

Loftgæði og loftræsingarkerfi

Fyrsta erindið flutti Óli Þór Jónsson, vélaverkfræðingur, og fjallaði hann um loftræsingu , hita og rakastig í byggingum. Óli Þór lagði mikla áherslu á gæði lofts á heimilum og á vinnustöðum en sýnt hefur verið fram á neikvæð áhrif slæms lofts á líðan og frammistöðu fólks. Fundargestum voru sýndar þrjár mismunandi tegundir af loftræsingarkerfum sem auðvelt er að setja upp á heimilum. 

Óli Þór fjallaði líka um styrk koltvísýrings, CO2, í andrúmsloftinu sem hefur vaxið mikið frá því fyrir iðnbyltingu. Samkvæmt mælingum er hlutfall CO2  411.31 ppm (parts per million) en grunngildi frá miðri síðustu öld voru á milli 360 og 370 ppm.  Koltvísýringur er ein af gróðurhúsa­lofttegundunum sem hefur áhrif á loftgæði og hlýnun jarðar. 

Forvarnir mikilvægar

Sylgja Sigurjónsdóttir, líffræðingur, fræddi fundargesti um innivist , rakaskemmdir og hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á heilsu. Hún fjallaði um VOC efnasambönd (e. volatile organic compound), svokölluð rokgjörn efni, sem hafa áhrif á loftgæði innanhúss og eru sum hver heilsuspillandi. Æskilegast er að velja efni og vörur, t.d. lím, málningu, byggingarefni, teppi og lakki, með sem lægstum VOC stuðli. 

Sylgja sagði jafnframt frá því að myglugró væru að finna alls staðar í umhverfinu og í öllum byggingum en mygla myndast ekki fyrr en gróin komast í tæri við vökva. Það væri því áríðandi að huga vel að rakastigi innandyra, þurrka strax ef vatnstjón verður og lofta vel út úr húsum. Einnig væri mikilvægt að fylgjast með raka og ryki í hornum á milli útveggja og við rúður. 

Að lokum fjallaði Sylgja um mikilvægi forvarna í þessum málum og býður EFLA því upp á nýja þjónustu þar sem veitt er ráðgjöf  í rakaöryggi bygginga á hönnunar- eða framkvæmdastigi. Í því fest m.a. hermun á rakaflæði í gegnum byggingarhluta í forritum sem nota íslensk veðurgögn. 

Hljóðhönnun í opnum vinnurýmum

Ólafur Daníelsson, hljóðvistarsérfræðingur, fjallaði um hljóðhönnun bygginga og mismunandi hljóðáreiti í samfélaginu. Mikilvægt væri að tryggja góða hljóðvist rýma þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á  neikvæð áhrif hávaða á líðan fólks. Í byggingarreglugerð er hljóðvistarákvæði við nýhönnun bygginga og verður aðalhönnuður að tryggja að þær séu uppfylltar, sjá nánar reglugerð: Greinargerðir hönnuða 4.5.3.  

Ólafur tók dæmi um hvernig draga mætti úr hávaða í rýmum t.d. með því að stytta ómtímalengd, hljóðeinangra milli rýma og huga að hljóðstigi frá tæknibúnaði bygginga  eins og loftræsibúnaði og lögnum. Þá voru opin vinnurými rædd og bent á góðar leiðir við hönnun slíkra rýma með tilliti til hljóðvistar og hávaðadreifingar. Einnig þarf að huga að vinnulagi á hverju svæði, hafa nóg af litlum síma/fundarherbergjum og huga að gönguleiðum í vinnurýminu. 

Við viljum þakka öllum gestum fyrir komuna á EFLU-þingið. Það var ánægjulegt hvað margir sáu sér fært að mæta til okkar og fræðast um innivist í byggingum. 

Sjá tengda frétt.

Gestir á EFLU-þingi.

Óli Þór flytur erindi sitt um loftræsingu.

Óli Þór Jónsson sýndi þrjú mismunandi lofræsitæki.

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir ræddi um innivist, rakaskemmdir og heilsu.

Ólafur Daníelsson fjallaði um innivist og hljóðhönnun.

Gestir ræddu málin í kaffihléinu.

Gestir ræddu saman í kaffihléi.

Helga Sveinbjörnsdóttir sá um fundarstjórn.

Séð yfir salinn í Hofi.