Fréttir


Fréttir

Ísbrotvél fyrir gangagerð á Langjökli

5.3.2014

Innan skamms hefjast framkvæmdir við gerð Ísganga á Langjökli. Hluti verkefnisins er hönnun og smíði á sérhæfðri brotvél sem mala mun niður hjarn og ís við gangagerðina. Mikil heimildaleit leiddi í ljós að líklega hefur slík brotvél fyrir jökulís aldrei verið smíðuð í heiminum
  • Ísbrotsvél vegna gangagerðar í Langjökli
    Hönnun, spennugreining og þrívíðar teikningar ísbrotvélarinnar voru gerðar í Autodesk Inventor.

Innan skamms hefjast framkvæmdir við gerð ísganga á Langjökli. Að framkvæmdunum stendur félagið Ísgöng ehf en það er í eigu Icelandic Tourism Fund, sem er fjárfestingarsjóður sem sérhæfir sig í nýjum afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustu á Íslandi. EFLA verkfræðistofa hefur þróað verkefnið frá árinu 2010 og mun sjá um útfærslu ganganna og annast umsjón með framkvæmdunum.

Hluti af verkefninu er hönnun og smíði á sérhæfðri brotvél sem mala mun niður hjarn og ís við gangagerðina. Mikil heimildaleit leiddi í ljós að líklega hefur slík brotvél fyrir jökulís aldrei verið smíðuð í heiminum. Það sem næst þessu kemst er vél sem bandaríski herinn smíðaði fyrir gangagerð í hjarni á Suðurskautinu árið 2001.

Uppbygging vélarinnar byggir að miklu leiti á Suðurskautsvélinni en einnig á rannsóknarvinnu sem unnin var af verkfræðinema á EFLU í fyrrasumar en Nýsköpunarsjóður Námsmanna styrkti þá vinnu. Fyrri rannsóknir á hegðun íss voru nýttar til að þróa tennur sem brjóta ísinn með sem minnstri orkuþörf og nýta veikleika íssins sem er lítið togþol. Smíðuð var frumútgáfa af ísbrotvél og athuganir gerðar á heppilegum snúningshraða og millibili milli tanna. Í kjölfarið var ákveðið að ráðast í gerð stærri og afkastameiri vélar þar sem notast var við endurbætta hönnun tanna.

Vélahönnuðir EFLU byggðu á þeirri reynslu sem varð til í verkefninu á Suðurskautinu og rannsóknum verkfræðinemans frá sumrinu og hönnuðu sterkbyggða vél sem passar framan á Bobcat vinnuvél og er drifin áfram með glussakerfi vinnuvélarinnar líkt og aðrar vélar sem ætlaðar eru til hinna ýmsu verka. Brotvélin er um 1,5 m á breidd og malar hún alla breidd ísganganna í einu en vinnuvélin lyftir brotvélinni mest upp í 2,4 m hæð. Glussamótor drífur öxul með keðju en á öxlinum er alls 60 tennur úr Hardox stáli. Tennurnar saga raufar í ísinn og brotnar hann auðveldlega undan tönnunum. Ísmulningurinn er síðan fluttur aftur fyrir vinnuvélina þar sem honum er komið í vagn sem dreginn er út úr göngunum af vélsleða.

Héðinn hf sá um smíði brotvélarinnar og vann einnig nauðsynlegar breytingar á vinnuvélinni. Til þess að vélin og notkun hennar uppfylli lög og reglur var hún CE-merkt og var sú vinna unnin af EFLU enda býður EFLA upp á sérfræðiþjónustu í CE merkingum.

CE-merking vöru gefur til kynna að viðkomandi vara uppfylli þær kröfur sem settar eru fram í tilteknum Evróputilskipunum, svokölluðum nýaðferðartilskipunum. Sá sem telur sig fullnægja öllum ákvæðum allra slíkra tilskipana, sem vöru hans varða, hefur leyfi til að auðkenna vöru sína með stöfunum CE.
CE-merking tiltekinnar vöru er þannig ekki eingöngu yfirlýsing um að varan sé í samræmi við ákveðna tilskipun heldur sérhverja nýaðferðartilskipun sem gæti átt við vöruna. Slík auðkenning er skilyrði fyrir markaðssetningu þeirra vöruflokka sem tilskipanirnar ná yfir.