Fréttir


Fréttir

Íslensku lýsingarverðlaunin komu í hlut EFLU

20.6.2016

EFLA verkfræðistofa hlaut Íslensku lýsingarverðlaunin 2015 fyrir lýsingarhönnun brúarinnar við Fífuhvammsveg í Kópavogi en sjö verkefni voru tilnefnd. Brúin tengir verslunarmiðstöðina Smáralind við verslunar- og skrifstofuturninn við Smáratorg. Arkís arkitektar hönnuðu brúna og voru einnig þátttakendur í lýsingarhönnuninni.
  • Ljósahönnun á brú yfir Fífuhvammsveg
Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á þætti góðrar lýsingarhönnunar og lýsingalausna í byggingum eða opnum svæðum. Það var einhljóma álit dómnefndar að velja verk EFLU og í umsögn hennar kom m.a. fram „Á haganlega hátt hefur lýsingahönnuðinum tekist að veita birtu inn í rýmið með lausn sem er í senn spennandi, sveigjanlega og nútímaleg. Síbreytilegt sjónarspil með margbreytilegan staðaranda þar sem birta og skuggar leika saman. Ljósaspil sem kemur sífellt á óvart“.

Megin markmið við hönnun lýsingar brúarinnar var að auðga hana með aðlaðandi hlýju og skrautlýsingu og að hægt væri að nota lýsinguna á fjölbreyttan máta. Þannig má forrita lýsinguna á brúnni á margvíslegan máta og hægt að breyta litunum allt eftir tilgangnum í hvert skipti.

Þá ber að geta að með þessum verðlaunum verður EFLA einn af tveimur fulltrúum Íslands í Nordisk Lyspris 2016 sem verður haldin 10. október í Hörpunni. Þar keppa 10 verkefni frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Íslandi um lýsingarverðlaun Norðurlandanna fyrir árið 2016.

Bru Fifuhvammsvegi 320 x 238