Fréttir


Fréttir

Klasamyndun í áliðnaði

24.6.2011

  • Emal álverið í Abu Dhabi
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samál - Samtaka álframleiðenda á Íslandi

Vísir - Aðsendar greinar 23. júní 2011 05:30

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samál - Samtaka álframleiðenda á Íslandi, skrifar:

Í annarri grein minni um vægi áliðnaðar á Íslandi er fjallað um þann fjölda fyrirtækja sem sprottið hefur upp í kringum þessa atvinnugrein hér á landi.

Við mat á þjóðhagslegu vægi áliðnaðar hér á landi vill það gjarnan gleymast hversu mikil viðskipti íslensku álverin eiga við hundruð innlendra fyrirtækja á ári hverju. Heildarfjárhæð þessara viðskipta árið 2010 nam 24 milljörðum króna og eru raforkukaup þar ekki meðtalin. Áliðnaður hefur starfað á Íslandi í liðlega 40 ár, eða frá því að álverið í Straumsvík hóf starfsemi sína árið 1969. Framan af var álframleiðsla lítil, innan við 100 þúsund tonn á ári eða sem samsvaraði um 0,5% af heimsframleiðslu. Mikil aukning hefur orðið á liðnum árum og á síðasta ári voru flutt út frá Íslandi 820 þúsund tonn af áli fyrir 222 milljarða króna. Þetta samsvarar 2% af heimsframleiðslu áls, sem er sambærilegt vægi okkar í fiskveiðum í heiminum.

Aukið vægi áliðnaðar á liðnum 10 árum hefur ekki aðeins aukið útflutningstekjur þjóðarinnar heldur hefur einnig myndast fjöldi fyrirtækja í kringum iðnaðinn. Þetta er í samræmi við þá þróun sem orðið hefur í áliðnaði í Kanada. Þar í landi sinna liðlega 4 þúsund fyrirtæki þjónustu við áliðnað. Kanadísk fyrirtæki eru í fararbroddi í bæði hönnun, byggingu og þjónustu við álver um allan heim. Þar er virðisaukinn af stoðfyrirtækjum í kringum áliðnað að minnsta kosti jafn mikill og virðisaukinn af álverunum sjálfum.
Þessarar þróunar er farið að gæta hér á landi. Fjöldi íslenskra fyrirtækja er, auk þess að sinna þjónustu við íslensk álver, einnig tekinn að flytja út þjónustu sína eða vörur. Veruleg sóknarfæri eru fyrir íslenskt atvinnulíf á þessu sviði á komandi árum. Hér starfa stærstu alþjóðlegu fyrirtækin í áliðnaði. Fyrirtæki sem hefur sýnt og sannað getu sína til að þjónusta álver hér á landi er um leið orðið gjaldgengt í þessum iðnaði um heim allan, enda kröfurnar sem gerðar eru til þjónustuaðila hér síst minni en annars staðar í heiminum.

Íslensk fyrirtæki farin að þjóna álverum erlendis

Dæmi um þessa þróun er Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar sem hefur sérhæft sig í þjónustu við áliðnaðinn. Fyrirtækið sinnir annars vegar ýmiss konar þjónustu við daglegan rekstur álveranna en jafnframt framleiðir það úrval tækjabúnaðar til álframleiðslu undir vörumerkinu Stímir. Þessi búnaður hefur verið seldur til álvera í 19 mismunandi löndum. 

Annað dæmi er EFLA verkfræðistofa, sem hefur um árabil unnið að framkvæmdum við álver og orkufrekan iðnað um allan heim. Fyrirtækið hefur unnið við tugi álvera í löndum eins og Noregi, Svíþjóð, Argentínu, Venesúela, Óman, Barein, Dubai, Katar og Kína svo dæmi séu nefnd.

Þetta er svipuð þróun og hófst í sjávarútvegi fyrir um aldarfjórðungi þegar fyrirtæki á borð við Marel fóru að vaxa og dafna í tengslum við sjávarútveginn. 

Marel byggir afkomu sína núna að óverulegu leyti á íslenskum sjávarútvegi en hefði hins vegar aldrei komist á legg nema fyrir tilstilli hans. Öflugur og kröfuharður heimamarkaður skapaði þar tækifæri sem fyrirtækið nýtti sér síðan til fullnustu.

Ekki er ólíklegt að hér geti svipuð þróun orðið í áliðnaði og raunin varð í sjávarútvegi.
Í umræðu um áliðnað er gjarnan einblínt á álverin sjálf en oft vill gleymast að sú mikla þekking sem hér hefur byggst upp í kringum iðnaðinn skapar einnig fjölda tækifæra.