Fréttir


Fréttir

Kolefnisreiknir fyrir íslensk heimili

2.11.2019

EFLA og Orkuveita Reykjavíkur hafa opnað kolefnisreikni fyrir einstaklinga sem tekur mið af íslenskum aðstæðum. Þar geta allir fundið út sitt kolefnisspor og fengið ráðleggingar um hvernig hægt er að draga úr því.

  • Kolefnisreiknir EFLU og OR
    Kolefnisreiknir sem tekur mið af íslenskum aðstæðum hefur opnað. Það eru EFLA og OR sem standa að kolefnisreikninum.

Vinna við gerð kolefnisreiknisins hefur staðið yfir síðustu mánuði og hefur nú vefurinn kolefnisreiknir.is litið dagsins ljós en hann er öllum aðgengilegur. Orkuveita Reykjavíkur og EFLA tóku höndum saman, sjá verkefnalýsingu, um að þróa kolefnisreikninn með það að markmiði að stuðla að vitundarvakningu meðal almennings um neyslumynstur og benda á leiðir til að minnka kolefnisspor. Með þessu framtaki taka fyrirtækin afstöðu í baráttunni gegn loftslagsvánni ásamt því að sýna samfélagslega ábyrgð í verki.

Kolefnisreiknir EFLU og OR

Kolefnissreiknirinn sýnir eina gerð umhverfisáhrifa sem eru tilkomin vegna athafna okkar og byggja á því vali sem við stöndum frammi fyrir daglega t.d. hvað varðar vörur, þjónustu, lifnaðarhætti, ferðamáta og matvæli. Útreikningarnir styðjast við vistferilsgreiningar (life cycle assessment, LCA), sem er stöðluð aðferð til að meta umhverfisáhrif þjónustu og vara yfir allan líftíma þeirra og alla virðiskeðjuna. 

Kolefnisspor Meðal-Jóns og Dæmi-Gerðar, m.v. íslenskar aðstæður, eru um 12 tonn CO₂ ígilda á ári en samkvæmt Parísarsamkomulaginu um að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5°C ætti það ekki að vera meira en 4 tonn.

Öll getum við bætt okkur

Núna geta allir fundið sitt kolefnisspor sér að kostnaðarlausu og fengið ráðleggingar um hvernig hægt er að draga úr því. Í reikninn slær notandinn inn upplýsingar um eigin venjur og lifnaðarhætti og er kolefnisspor hans svo borið saman við meðaleinstakling annars vegar og hvað það þyrfti að vera út frá loftslagsmarkmiðum Íslands hins vegar.

Upplýsingar sem settar eru inn í kolefnisreikninn eru ekki persónugreinanlegar. Allar nánari upplýsingar um aðferðafræði, útreikninga og fróðleik er að finna á vefsíðu Kolefnisreiknis.

Opna Kolefnisreikni

Sigurður Thorlacius og Hólmfríður SigurðardóttirViðtal við Sigurð Loft Thorlacius hjá EFLU og Hólmfríði Sigurðardóttur frá OR birtist í Fréttablaðinu
2. nóvember 2019 þar sem þau sögðu frá tilurð verkefnisins. Mynd. Ernir á Fréttablaðinu.

Sjá viðtal.