Fréttir


Fréttir

Hljóðráðgjöf Kórsins

25.8.2014

Íþróttahúsið Kórinn var hljóðhannaður af EFLU verkfræðistofu. Hönnunarmarkmið fyrir hljóðvist íþróttahússins tóku ekki einungis mið af hefðbundinni íþróttanotkun heldur var jafnframt miðað við að hljóðvist salarins myndi henta fyrir stórtónleika.
  • Áhorfendur á Justin Timberlake í Kórnum

Hugað var sérstaklega að ómtíma og hljóðdempun innan íþróttasalarins. Markmið voru metnaðarfull í þessu samhengi og viðfangsmiklar aðgerðir nauðsynlegar þar sem heildarrúmtak salarins er um 260.000 m3.

Hljómburðarlíkan var sett upp af salnum með hugbúnaðinum Odeon. Í líkanið voru skilgreindir allir fletir rýmisins, þ.m.t. stálbogar í lofti, þakefni, sæti, stúka, hurðir og gler, til þess að líkja sem best eftir raunverulegum hljómburði á tónleikum. Auk þessa voru settar inn loftræsisamstæður rýmisins, fimm talsins, loftræsistokkar, kasttúður og þakblásarar, til þess að geta spáð fyrir um hljóðstig frá tæknibúnaði.

Hljóðísogsefni voru valin af kostgæfni til þess að tryggja sem styðstan ómtíma og að ómur væri eins jafn yfir tíðnisviðið eins og hægt væri, til þess að tryggja sem ákjósanlegastan hljómburð fyrir slagfasta tónlist.