Fréttir

Mælingar við brúna yfir Eldvatn

1.12.2015

Undanfarið hefur EFLA á Suðurlandi unnið að mælingum og kortaflugi við brúna yfir Eldvatn í Skaftafellssýslu fyrir Vegagerðina.
  • Brú yfir Eldvatn

Stuttu eftir að hlaupið í Skaftá gróf undan eystri undirstöðu brúarinnar fóru starfsmenn EFLU á svæðið með Trimble VX alstöð til að framkvæma hæðarmælingar á brúargólfinu auk þess sem eystri undirstaðan og stálbitar undir brúnni voru skönnuð inn í þrívídd. Tilgangur þessara mælingar var m.a. að auðvelda starfsmönnum Vegagerðarinnar að meta ástand brúarinnar eftir hlaupið.

Núna í nóvember fóru starfsmenn EFLU aftur á svæðið til að taka loftmyndir af umhverfi brúarinnar. Við loftmyndatökuna var notast við sjálfvirkt Trimble UX5 flygildi (e. drone) í eigu EFLU og Suðra ehf. og voru teknar um 2500 ljósmyndir úr lofti.
Að lokinni myndatöku eru ljósmyndirnar unnar í þar til gerðum hugbúnaði sem sameinar ljósmyndirnar og vinnur úr þeim eina heildstæða loftmynd ásamt þrívíðu hæðarmódeli af svæðinu.

Hæðarmódelið og loftmyndin nýtist hönnuðum Vegagerðarinnar við að undirbúa athugun á nýju brúarstæði yfir ána auk þess sem hægt væri að nýta gögnin í hönnun á frekari flóðavörnum ef til þess kæmi.

Nánari upplýsingar um kortaflug EFLU