Fréttir


Fréttir

Margverðlaunað hótel Bláa lónsins

Verðlaun, Bláa lónið, Retreat, The Blue lagoon, Blue lagoon, Verkfræðihönnun

19.7.2019

Rúmt ár er síðan Bláa Lónið opnaði glæsilegt hótel og upplifunarsvæði, The Retreat at Blue Lagoon Iceland. Staðurinn hefur vakið mikla eftirtekt fyrir vandaða hönnun og hlotið fjölmörg verðlaun fyrir hönnun, þjónustu og útlit. EFLA hefur átt í góðu samstarfi við Bláa lónið um langt skeið og sá meðal annars um verkfræðihönnun í verkefninu.

  • Bláa Lónið
    Inngangur að The Retreat at Blue Lagoon.

Viðurkenningarnar og verðlaunin sem The Retreat at Blue Lagoon hefur hlotið síðan það opnaði í apríl 2018 eru að nálgast á annan tug. Meðal þess sem staðurinn hefur verið verðlaunaður fyrir er innanhúshönnun, steinsteypuhönnun, besta hótel og spa ásamt því að hafa hlotið hönnunarverðlaun Íslands. 

Hönnunarverðlaun í flokki lúxushótela 

Í júní hreppti The Retreat at Blue Lagoon aðalverðlaun Hospitality Design Magazine í flokki best hönnuðu lúxushótela heimsins. Um er að ræða ein eftirsóttustu hönnunarverðlaun heims og mikil viðurkenning að hljóta verðlaunin en þess má geta að um 1000 tilnefningar voru sendar í keppnina.

Red Dot hönnunarverðlaun | Best of the Best

Nýverið var svo tilkynnt að The Retreat at Blue Lagoon hafi hlotið Red Dot hönnunarverðlaun fyrir innanhúshönnun ásamt því að vera valinn, The Best of the Best, sem eru aðalverðlaun Red Dot og veitt þeim aðila sem þykir skara fram úr meðal verðlaunahafa hverju sinni.

Tilnefning til Dezeen verðlauna

Í júlí var tilkynnt að hótelið hafi hlotið tilnefningu til Dezeen verðlauna í flokknum Hospitality Architecture, Hotel and short stay interior and Leisure and wellness interior. Dezeen tímaritið er eitt vinsælasta og áhrifaríkasta arkitektúr- og hönnunartímarit heims og hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir blaðamennsku og útgáfu. Sigurvegarar verða tilkynntir í nóvember næstkomandi. 

Verkfræðihönnun innan mannvirkjagerðar

Það hefur sannarlega verið skemmtilegt og gefandi að vinna með Bláa lóninu og öllum þeim hæfileikaríku samstarfsaðilum verkefnisins og taka þátt í að búa til eftirtektarverðan stað á heimsmælikvarða. EFLA kom að verkefninu með fjölbreyttum hætti og sá um alla verkfræðihönnun innan mannvirkjagerðar, þ.m.t. hönnun burðarvirkis, hönnun lónslagna, loftræsingu, brunahönnun, raflagnahönnun, hljóðvist og verkefnastjórnun. Hægt er að lesa um verkefnið á vefnum okkar. 

Við þökkum Bláa Lóninu, Basalt arkitektum, Verkfræðistofu Suðurnesja, Jáverk, Liska og Design Group Italia fyrir ánægjulegt samstarf og óskum þeim til hamingju með frábæran árangur og útkomu sem sannarlega hefur verið tekið eftir.

Helstu viðurkenningar og verðlaun staðarins hafa verið tekin saman í skemmtilegu myndbandi frá Bláa lóninu.

Awards | The Retreat at Blue Lagoon