Fréttir


Fréttir

Meiri notkun endurnýjanlegrar orku

25.6.2020

Síðastliðin ár hafa fiskimjölsverksmiðjur hérlendis unnið markvisst að því að gera framleiðsluna umhverfisvænni. EFLA hefur veitt ráðgjöf varðandi verkefnið og meðal þess sem hefur áunnist er aukin rafvæðing verksmiðja og minni notkun á olíu.

  • Landsvirkjunundirritun22062020-002
    Jón Már Jónsson, formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrita samkomulag um að stuðla að enn frekari notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði. Mynd: Landsvirkjun.

EFLA hefur unnið með FÍF (Félagi íslenskra fiskimjölsverksmiðja) síðustu árin við að ná meiri árangri í rafvæðingu í verksmiðjum ásamt því að draga úr notkun á olíu. Er þessi viðleitni liður í því að gera framleiðsluna umhverfisvænni, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við skuldbindingar Íslands samkvæmt markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Viljayfirlýsing hagsmunaaðila mikilvægur hvati

Fiskmjölsframleiðendur hafa stuðst bæði við olíu og rafmagn í framleiðslu sinni og keypt svokallað skerðanlegt rafmagn. Framboð á slíku rafmagni er takmarkað og hafa framleiðendur fiskmjöls þurft að reiða sig líka á olíu með tilheyrandi mengun.

Það var síðan árið 2017 að Landsvirkjun og FÍF (Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda) lýstu því yfir að orkufyrirtækið myndi auka framboð á skerðanlegri raforku en olía yrði áfram varaaflgjafi fiskmjölsframleiðenda. Það varð verksmiðjunum mikilvægur hvati til að ráðast í þær fjárfestingar sem þurfti til að keyra framleiðsluna á rafmagni.

FÍF og Landsvirkjun hafa nú lýst því yfir að svipað fyrirkomulagi gildi til næstu þriggja ára og undirrituðu fulltrúar fyrirtækjanna samkomulag þess efnis á dögunum.

Kolefnislosun minnkaði um 168.000 tonn

Rafmagn uppfyllir nú 83% af orkuþörf fiskmjölsverksmiðja og hefur það hlutfall hækkað úr 75%. Hlutfall rafmagns í orkukaupum fiskmjölsverksmiðjanna hefur farið sívaxandi og hefur síðustu þrjú ár sparað brennslu á 56,5 milljón lítrum af olíu og minnkað kolefnislosun fiskmjölsverksmiðjanna um 168 þúsund tonn. Það samsvarar akstri 36.295 fólksbíla á einu ári.

Orkuskipti í íslenskum höfnum

Þess má geta að EFLA hefur unnið töluvert við raforkuvæðingu skipaflotans og leggur áherslu á að bæði hafnir og skip nái sambærilegum árangri með landtengingum skipa. 

Sjá eldri frétt.