Mjóafjarðarbrú hluti af verðlaunaframkvæmd
Vörðuna, viðurkenningu Vegagerðinnar fyrir mannvirki 2008-2010, hlaut verkefnið Djúpvegur, Reykjanes-Hörtná. Hluti af þeim vegi er þverun Mjóafjarðar með 130 m langri stálbogabrú sem EFLA hannaði.
Í umsögn dómnefndarinnar kemur eftirfarandi fram:
Vegurinn liggur um fjölbreytt og fallegt landslag, um nes, firði, eyju og hálsa. Á honum eru nokkrar brýr, þar af ein yfir Reykjafjörð, önnur yfir Vatnsfjarðarós og þriðja yfir Mjóafjörð. Vegurinn er vel lagður og gjörbreytir samgöngum um Ísafjarðardjúp til hins betra. Landslagið meðfram veginum er vel lagað að óhreyfðu landi og uppgræðsla hefur tekist vel. Útsýnið af veginum er mjög fallegt og brúin yfir Mjóafjörð er glæsilegt og minnisstætt kennileiti í landslaginu. Aðrar brýr eru vel útfærðar. Áningarstaðir við brúna í Mjóafirði eru vel staðsettir til útivistar. Frágangur er á heildina litið góður, ekki allur fullkominn en heildaryfirbragð framkvæmdarinnar er mjög gott.
Viðurkenningin er veitt öllum sem komu að framkvæmdinni. Veghönnunardeild Vegagerðarinnar hannaði veginn, brúardeild Vegagerðarinnar hannaði brýr yfir Reykjafjörð og Vatnsfjarðarós, EFLA verkfræðistofa hannaði brúna yfir Mjóafjörð. Vegagerðin á Ísafirði hafði eftirlit og umsjón með framkvæmdinni og verktakar voru KNH og Vestfirskir verktakar.
Alls voru 16 verkefni tilnefnd frá öllum svæðum Vegagerðarinnar eins og fram kemur í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar.
Um brú á Mjóafjörð:
Brú yfir Mjóafjörð, vígð þann 3. september 2009, var síðasti hluti uppbyggingar Djúpvegar (61) ásamt vegi um Arnkötludal, sem opnaður var fyrir umferð í október 2009.
Árin 1999 og 2000 vann EFLA frumdrög að brú yfir Mjóafjörð þar sem kannaðir voru valkostir við þverun sundsins austan Hrúteyjar í Mjóafirði, sem er um 95 m breitt og 15 m djúpt. Skoðaðir voru tveir aðalvalkostir, stagbrú og stálbogabrú.
Brúin var hönnuð 2005-2006 og árið 2006 var boðin út smíði og bygging stálbogabrúar sem hluti af verkefninu Djúpvegur, Reykjanes-Hörtná.
Brúin er 130 m löng með tveim samtengdum yfirliggjandi stálbogum sem hallast hvor mót öðrum. Hæð þeirra er um 14 m yfir akbraut. Bogahafið er 107 m, hið lengsta á Íslandi. Yfirbygging brúarinnar, sem gerð er úr samverkandi steypu- og stálvirki, er hengd í bogana með stöngum úr hástyrkleikastáli. Langbitar brúargólfsins eru tveir soðnir kassabitar, tengdir saman með soðnum kassalaga þverbitum með um 4 m millibili. Milli þverbitanna liggja forsteyptar plötueiningar sem brúargólfið var steypt ofan á.
Heildarbreidd yfirbyggingar er 11,3 m, þar af er akbraut 8 m breið.
Undirstöður stálboganna eru grundaðar á klöpp. Hver spyrna stendur sjálfstætt og hefur stefnu í plani stálboganna. Form endastöplanna tekur mið af bogaspyrnunum, framveggur þeirra og hliðar hallast til samræmis við bogaspyrnur. Miðað var við að gera endastöpla sem minnst áberandi með því að láta þá ganga inn í vegfyllingu.