Fréttir


Fréttir

Nýsköpun og þróun í áliðnaði

Álklasinn, Nýsköpunarmót

20.3.2019

Nýsköpunarmót Álklasans fór fram í gær í Háskóla Íslands og hélt Leó Blær Haraldsson, vélaverkfræðingur hjá EFLU, erindi um hvernig hægt er að nýta umframorku sem fellur til hjá álveri til húshitunar. 

  • Álklasamót 2019
    Nýsköpunarmót Álklasans fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands 19. mars 2019. Mynd: Álklasinn.

Álklasinn er samstarfsvettvangur fyrirtækja sem tengjast áliðnaðinum og er ætlað að stuðla að nýsköpunar- og þróunarverkefnum. EFLA er einn af styrktar- og samstarfsaðilum Álklasans og tekur virkan þátt í samstarfinu. Markmiðið með Nýsköpunarmótinu er að auka tengsl háskólasamfélagsins og áliðnaðarins, hvetja til rannsóknarstarfa og veita nemendum hvatningarverðlaun fyrir vel unnin verkefni í áliðnaði. Þetta er í þriðja sinn sem Nýsköpunarmótið fer fram og í ár voru málefni tengd snjallvæðingu, loftslagsmálum og hringrásarkerfinu ofarlega á baugi. Að auki var íslenski álbíllinn, Ísar, til sýnis og vakti hann mikla athygli gesta.

Umframorka nýtt til húshitunar

Í fyrra hlaut Leó Blær Haraldsson, vélaverkfræðingur hjá EFLU, hvatningarverðlaun Álklasans fyrir áhugavert meistaraverkefni sem hann vann um hvernig hægt er að nýta umframorku sem fellur til hjá álveri Alcoa Fjarðaáls til húshitunar í Reyðarfirði. 

Leo BlærLeó Blær Kristinsson.

Leó fjallaði um hvernig hægt væri að endurnýta varmann úr útblástursgösunum í Fjarðaáli með því að hita upp vatn. Við það lækkar hitastigið á gasinu sem hefur í för með sér minni losun flúors í andrúmsloftið. Kerfið myndi skila nægilega miklu magni af heitu vatni til Reyðarfjarðar til húshitunar og neyslu. Auk þess yrði til umframvarmi og þá sérstaklega yfir hlýrri mánuði ársins sem hægt væri að nota í áhugaverð verkefni, eins og til dæmis, ylströnd á Reyðarfirði.

Áætlaður kostnaður fyrir varmaendurvinnslukerfi ásamt dreifikerfi erum 2,5 milljarðar. Á Reyðarfirði er nú hitað með rafmagni en ríkið niðurgreiðir dreifikostnað á rafmagninu. Það eru fordæmi fyrir því að verkefni af þessu tagi hljóti styrk frá ríkinu en það væri mögulega hægt að fá styrk sem nemur allt að tólf árum af ofangreindum niðurgreiðslum. Þannig væri hægt að fjármagna verkefnið að fullu.

Álklasamót 2019Íslenski álbíllinn Ísar var til sýnis og vakti hann heilmikla athygli. Mynd: Álklasinn.

Álklasamót 2019Handhafar hvatningarverðlauna ásamt forsvarsmönnum fyrirtækjanna sem standa að viðurkenningunni. Mynd: Álklasinn.