Fréttir


Fréttir

Öruggari hjóla- og gönguleiðir yfir vetrartímann

10.1.2017

EFLA ákvað að ráðast í þróunarverkefni síðastliðinn vetur í þeim tilgangi að athuga hvort hægt væri að bæta hreinsun hjólastíga til þess að efla öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda að vetrarlagi.
  • Snjóhreinsun stíga

Þegar mikil hálka er á höfuðborgarsvæðinu er ekki óalgengt að á annað hundrað manns leiti á bráðamóttöku LHS vegna hálkuslysa (nákvæmar tölur liggja ekki fyrir). Þátttakendur í verkefninu ásamt EFLU voru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbær auk verktakafyrirtækisins Hreinsitækni.

Ný aðferð við snjóhreinsun og hálkuvarnir stíga

Aðferðin felst í því að stígar eru sópaðir niður í bert yfirborð stígsins og síðan er saltpækli ýrt yfir stíginn til að bæta hálkuvörnina. Athugað var hvort aðferðin gæti verið valkostur við hreinsun stíga og hvaða árangur sú aðferð bæri. Þess má geta að þessi aðferð er í auknum mæli notuð á hinum Norðurlöndunum og þannig tekin fram yfir hefðbundinn snjóruðning og söndun á stígum.

Ókostur við núverandi aðferð er sá að þegar stígur er ruddur, þá verður eftir snjór, sem síðan verður að svelli í leysingum. Sandur sem borinn er á í kjölfar snjóruðningsins verður að litlu gagni þegar ísing leggst yfir hann eða hann sokkinn í svellið.

Tilraunaverkefnið og aðferðin

Aðferðin við snjóhreinsunina var prufuð á tímabilinu 21. desember 2015 til 26. janúar 2016. Tilraunin var gerð á tveimur stígum, hjólaleið í Fossvogsdal í Reykjavík og hjólaleið í Vatnsendahverfi Kópavogs. Þá voru göngustígar sem lágu samhliða hjólastígunum og voru hreinsaðir með hefðbundinni aðferð, þ.e. ruddir og sandaðir, skoðaðir til samanburðar. Fylgst var með árangri aðferðarinnar, annars vegar hvernig tækjakostinum gekk að hreinsa snjóinn með sópun og hálkuverja með pækli, og hins vegar hver afköst snjótækisins voru. Árangur aðferðarinnar var metinn með sjónrænum aðferðum, mælingu á yfirborðshita, auk þess sem gengið var og hjólað á yfirborði stígsins.

20170110 snjohreinsun stiga 2Tækið sem var notað við tilraunina. Kefli með nælonhárum og kassi með pækli.

Helstu niðurstöður 

Á báðum stígunum gekk tilraunin vel og sýnt var fram á að hjólastígarnir héldust bæði hreinir og stamir, þ.e. mun minni hálka var á yfirborðinu heldur en á samanburðargöngustígum. Þessar niðurstöður sýndu að hægt er að ná betri snjóhreinsun stíga með sópun og saltpækli í stað þess að ryðja snjóinn og sanda. Þá hefur þetta vinnulag það í för með sér að nýting hreinsitækisins með saltpækil sem hálkuvörn, er mun betri en með sandi, því sjaldnar þarf að aka eftir áfyllingu á saltpækli. Meðalhraðinn við snjósópun og pækildreifingu reyndist töluvert meiri en við hefðbundinn snjóruðning og söndun, þrátt fyrir að tækjakosturinn væri ekki eins og best væri á kosið.

Margvíslegur ávinningur og öruggari hjólastígar

Með aðferðinni, að sópa og salta stíga með pækli, næst betri árangur við hreinsun snjós og klaka af yfirborði stígsins. Þannig er hægt að koma oftar í veg fyrir slys á fólki og fækka óhöppum hjá hjólandi vegfarendum. Þá gæti sparast kostnaður sem hleypur á tugum milljóna við hreinsun á sandinum á vorin, bæði á götum, stígum og í frárennsliskerfum og stígar verða hreinni og minna um svifryk. 

Borg og bær taki ákvörðun um næstu skref

EFLA hefur kynnt niðurstöður verkefnisins fyrir þeim aðilum sem tóku þátt í því og hefur gefið út skýrslu um efnið. Að mati EFLU er næsta skref verkefnisins að fá til landsins sérútbúinn tækjabúnað til sópunar á snjó og pækildreifara sem tryggja lágmarksnotkun á saltpækli og þróa nýtt verklag við íslenskar vetraraðstæður. Gera þarf ráð fyrir þróun nýs verklags við sópun og hálkueyðingu.

Spennandi verður að fylgjast með framvindu verkefnisins, en markmiðið með öruggum hjólaleiðum er í takt við stefnu yfirvalda til framtíðar um hjólreiðatengd málefni og vistvæna valkosti. Aukin áhersla hefur verið lögð á að íbúar nýti sér umhverfisvæna samgöngumáta til dæmis með hjólreiðum og því mikilvægt að tryggja að hreinsun stíga sé með árangursríkum hætti. Ákvörðunarvaldið liggur því hjá borgar- og bæjaryfirvöldum og vonandi verður sterkur hljómgrunnur að þessu verkefni hjá þeim.

Öruggari og vistvænni samgöngumáti er allra hagur og vel til þess fallið að skoða þessa aðferð af kostgæfni.

Tengdar fréttir og skýrsla:

Skýrsla um verkefnið

Umfjöllun í Morgunblaðinu