Fréttir

Áhættu- og áfallaþolsgreining á óperugöngunum í Osló

2.7.2013

Norska vegagerðin hefur óskað eftir því að EFLA verkfræðistofa framkvæmi áhættugreiningu og áfallaþolsgreiningu vegna lengingar Óperuganganna (Operatunnelen) í miðborg Osló.
  • Neðanjarðargöng

Göngin hafa verið byggð í mörgum áföngum frá 1990 og eru í dag um 6 km löng með þrjár akreinar í báðar áttir auk ýmissa að- og fráreina. Umferð um Óperugöngin er mikil en áætluð árdagsumferð í göngunum er u.þ.b. 100.000 ökutæki á sólarhring, samanborið við árdagsumferð í Hvalfjarðargöngunum sem er um 5.000 ökutæki á sólarhring.

Núverandi Óperugöng voru opnuð þann 20.september 2010 þegar Bjørvikatunnelen voru tekin í notkun en Óperugöngin er samheiti yfir 4 tengd göng, nefnilega

  • Festningstunnelen sem opnuðu árið 1990.
  • Ekebergtunnelen sem opnuðu árið 1995.
  • Svartdalstunnelen sem oppnuðu árið 2000.
  • Bjørvikatunnelen/Operatunnelen sem voru formlega opnuð í september 2010.

Á annatímum er sérstaklega mikil umferð í Óperugöngum sem gerir það að verkum að langar og hægar biðraðir myndast í göngum og jafnvel er umferð stopp í talsverðan tíma.

Yfirvöld í Osló hafa í hyggju að lengja Óperugöngin með lokuðum stokk í annan endann sem lengir göngin um u.þ.b. 400 m. Lengingin gerir það að verkum að fleiri bílar munu standa í röð inni í göngum en áður, sérstaklega á álagstíma. Ef upp koma óhöpp í göngum eins og t.d. eldur eða flóð, þá þarf að vera hægt að rýma göng hratt og örugglega.

Um er að ræða umfangsmikið verkefni sem snýr að greiningu á áhættuþáttum í göngum auk ítarlegri greininga á völdum þáttum. Farið verður kerfisbundið yfir mögulega hættuþætti sem upp geta komið í göngum, afleiðingar þeirra metnar og lagðar til mögulegar aðgerðir til minnkunar áhættu. Lenging getur aðeins orðið að veruleika ef sýnt er fram á að áhættan sé ásættanleg eftir breytingar. Einnig verður þol vegakerfisins og samfélagsins metið m.t.t. atburða í gögnum auk greiningar á aðkomumöguleikum björgunaraðila o.fl.

rsz operagong frett2Mynd sýnir núverandi ástand.

rsz operagong frett1Líkan af göngunum eftir áætlaðar breytingar.