Fréttir


Fréttir

Opnun Norðfjarðarganga

15.11.2017

Þann 11. nóvember síðastliðinn voru Norðfjarðargöng opnuð fyrir almenna umferð. Með tilkomu ganganna er leiðin milli Neskaupsstaðar og Eskifjarðar stytt um fjóra kílómetra. EFLA sá um hönnun og ráðgjöf allra kerfa jarðganganna eins og rafkerfi, stjórnkerfi, lýsing, fjarskiptakerfi, loftræsing, neyðarstjórnun og öryggismál.

  • Norðfjarðargöng
    Norðfjarðargöng
Vegfarendum og íbúum á svæðinu hefur nú verið tryggður öruggari samgöngumáti sem styður  við uppbyggingu á þjónustu- og atvinnusvæði Fjarðabyggðar og leysir af erfiðan fjallveg um Oddsskarð, sem hefur nú verið lokað. 

LED lýsing í göngunum

EFLA notaði LED ljós í lýsingarhönnun ganganna en Norðfjarðargöngin eru meðal fyrstu jarðganga sem eru lýst með slíkum ljósum. Lýsing ganganna er því bjartari og hvítari með mun betri litaendurgjöf. Í göngunum er einnig kantlýsing sem sýnir vel veginn framundan og eru öll umferðarskilti upplýst með LED ljósum.  

Öflugt fjarskiptakerfi

Til að tryggja enn frekar öryggi vegfarenda í göngunum voru FM endurvarpar settir upp þannig að hægt væri að koma skilaboðum til vegfarenda í gegnum útvarpstæki. Í göngunum er einnig GSM og TETRA samband.

Fjölþætt reynsla

EFLA hefur unnið við fjölda jarðganga í Noregi og hafa sérfræðingar á sviðinu öðlast mikla reynslu við útfærslu á verkefnum sem þessum.

Við óskum íbúum Fjarðabyggðar til hamingju með nýju göngin.

Nánari upplýsingar um verkefnið