Fréttir

Orkumál rædd á morgunverðarfundi

8.11.2018

Farið var yfir stöðu orkumarkaða á Íslandi og erlendis á opnum morgunverðarfundi Landsvirkjunar þann 6. nóvember. Einnig fóru fram pallborðsumræður og tók sviðsstjóri orkusviðs EFLU þátt þeim.

  • Rafmagn Hafnarfjordur
    Ljósadýrð úr Hafnarfirði sem knúin er áfram með rafmagni.

Yfirskrift fundarins var Orkumarkaðir í mótun: Viðskipti og verðmyndun og var tilgangurinn að dýpka umræðuna um viðskipti með raforku. Hjá EFLU er fylgst náið með orkuverði og orkunotkun á Íslandi og hefur tvívegis gefið út skýrslu um þróun orkuverðs. 

Jón Vilhjálmsson, sviðsstjóri orkusviðs hjá EFLU, fer fyrir málaflokknum og tók hann þátt í líflegum pallborðsumræðum á fundinum. Þar sagði Jón m.a. „Samkeppni á íslenskum smásölumarkaði fyrir fyrirtæki hefur farið mjög vaxandi síðan opnað var fyrir frjálsa verslun á rafmagni hér á landi árið 2003.“

Jón Vilhjálmsson, sviðsstjóri orkusviðs EFLU

Umhverfisvæn orka

Fjölmörg áhugaverð erindi um raforkumarkaði fóru fram á fundinum og samanburður á íslenskum og erlendum mörkuðum ræddur. Munurinn fælist fyrst og fremst í uppruna orkugjafans en rafmagn í Evrópu er víða unnið úr kolum og gasi. Þannig væri sóknarfæri fyrir Ísland að framleiða umhverfisvæna orku þar sem eftirspurn eftir grænni valkostum.  Einnig kom fram í máli Jóns að nú er yfirleitt gerð sú krafa þegar boðin er út raforka að það fylgi með grænt skírteini.

Raforkumarkaðurinn á Íslandi

Fróðlegt viðtal birtist við Jón Vilhjálmsson í Viðskiptablaðinu þann 8. nóvember þar sem umræðuefnið var raforkumarkaðurinn á Íslandi. Meðal þess sem fjallað var um er samkeppnin á fyrirtækjahluta almenna raforkumarkaðarins en sala raforku á Íslandi skiptist í tvo aðskilda markaði, stórnotendur og smásölu til almennra nota. 

Viðskiptablaðið - viðtal við Jón Vilhjálmsson