Fréttir


Fréttir

Ráðstefna um þrýstiúðakerfi í London

13.10.2009

EFLA verkfræðistofa leggur áherslu á að starfsmenn fyrirtækisins viðhaldi og styrki fagþekkingu sína, og hvetur þá til að sækja ráðstefnur og námskeið erlendis í þeim tilgangi.

  • Brunaúði

EFLA átti fulltrúa á staðnum þegar haldin var ráðstefna um þrýstiúðakerfi til eldvarna í London í Englandi dagana 22. til 25. september sl.

Þrýstiúðakerfi er kostur sem velja má í stað hefðbundins vatnsúðakerfis til að brunaverja húsnæði.  Kerfið samanstendur af vatnsdreifikerfi sem svipar til hefðbundins vatnsúðakerfis, og háþrýstidælu sem fer í gang þegar elds verður vart. Þrýstiúðakerfið sprautar vatnsmettuðu háþrýstilofti á gólf og veggfleti og kæfir þannig eld sem kann að loga á þessum flötum.

Á svipaðan hátt og þegar blásið er á kerti þá kafnar eldurinn undan þrýstiloftinu sem að honum er beint, og eykur rakainnihald þrýstiloftsins á skilvirkni aðferðarinnar.

Hefbundin vatnsúðakerfi slökkva eld með því að bleyta byggingarhlutann sem verja á, en sú aðferð krefst mun meira vatnsmagns en þegar notað er þrýstiúðakerfi.

Þar af leiðandi er dreifikerfi þrýstiúðakerfis smærra í sniðum og því ódýrara.  Ennfremur krefst þrýstiúðakerfi að jafnaði færri úðastúta en hefðbundið vatnsúðakerfi, vegna þess að dreifisvæði háþrýstiúðastúts er stærra en venjulegs vatnsúðastúts.

Einn stærsti kostur þrýstiúðakerfisins liggur í því að tiltölulega litlar skemmdir hljótast af því að það sé notað.  Hefðbundið vatnsúðakerfi bleytir umhverfi sitt svo mikið að algengt er að af því hljótist ýmiskonar skemmdir.  Gólfefni, léttir veggir, tréburðarvirki og innanstokksmunir þola oft illa vatn, svo ekki sé minnst á viðkvæma hluti eins og bækur, skjöl og raftæki.  Þegar notað er þrýstiúðakerfi minnkar vatnsdreifing til mikilla muna, þannig að ofannefnt tjón lágmarkast.
Því hentar þrýstiúðakerfi einkar vel í verslunar-, skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði, á söfn og rannsóknarstofur sem og á einkaheimili.

EFLA hefur þegar notast við vatnsúðakerfi við hönnun húsnæðis Björgunarsveitar Suðurlands á Selfossi, sem og Kvikmyndaskóla Íslands í Kópavogi.