Raforkuspá fyrir Ísland 2015-2050
Spá um almenna notkun hefur staðist vel á undanförnum árum en þó hefur notkunin reynst aðeins meiri en gert var ráð fyrir vegna meiri notkunar í almennum iðnaði en á móti er notkun heimila minni en búist var við.
Lengi vel fór almenn heimilisnotkun utan rafhitunar vaxandi og náði hún hámarki árið 2009 er hún var 4,9 MWh/heimili að meðaltali. Síðan þá hefur notkunin minnkað jafnt og þétt og var komin í 4,5 MWh/heimili árið 2014 og hefur ekki verið jafn lítil í áratug. Helstu orsakir lækkunarinnar eru breytingar í lýsingu þar sem mun orkugrennri perur en glóperurnar eru komnar til sögunnar og heimilstæki hafa orðið sparneytnari. Á móti kemur að tækjum á heimilum hefur farið fjölgandi en flestar nýjar tækjategundir eru orkugrannar. Þessi þróun mun halda áfram og notkun á heimili ná lágmarki við um 4,0 MWh/heimili. Gert er ráð fyrir að fyrrnefndar breytingar í lýsingu fari einnig að skila sér í garðyrkju eftir nokkur ár og mun þá raforkunotkun í landbúnaði minnka.
Í atvinnustarfsemi utan stóriðju hefur raforkunotkun vaxið hraðast í almennum iðnaði og frá 2009 til 2014 er aukningin 137 GWh eða 24%. Um helmingur af aukningunni er hjá fiskimjölsverksmiðjum og annar fiskiðnaður er með rúm 20% af aukningunni. Á næstu árum er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu notkunar í almennum iðnaði m.a. vegna rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja. Hægt hefur aftur á móti á vexti raforkunotkunar í þjónustu á undanförnum árum. Á næstu áratugum er gert ráð fyrir miklum breytingum varðandi orkugjafa sem nýttir er í samgöngum og að raforka leiki þar stórt hlutverk. Í lok spátímabilsins er gert ráð fyrir að flestir nýir fólksbílar verði knúnir beint eða óbeint með raforku og að þessi breyting í stærri atvinnubifreiðum verði komin vel á veg.
Spá um heildar raforkuvinnslu yfir tímabilið, ásamt rauntölum áranna 1995-2014
Nánari upplýsingar um raforkuspá veitir Jón Vilhjálmsson hjá EFLU verkfræðistofu, starfsmaður raforkuhópsins, sími: 412 6000.
Raforkuspána má nálgast á heimasíðu Orkustofnunar þar er einnig skýrsla um almennar forsendur orkuspáa sem raforkuspáin byggir á.