Fréttir


Fréttir

Rannsóknarverkefni | Ný álmöstur

Statnett, Flutningskerfi, Noregur, Umhverfisáhrif

27.11.2020

EFLA ásamt samstarfsaðilum í Noregi hafa unnið að þróun nýrrar mastratýpu úr áli fyrir 420 kV flutningskerfið þarlendis. Markmiðið er m.a. að auka öryggi, stytta byggingartíma og ekki síst minnka neikvæð umhverfisáhrif mastranna yfir líftímann.

  • Ný hönnun álmastra í Noregi.
    Nýja álmastrið sómir sér vel í glæsilegu umhverfi í Noregi.

Í Noregi eru háspennulínur Statnett (sem rekur flutningskerfi raforku í Noregi), oft byggðar í mjög krefjandi aðstæðum og gjarnan í fjalllendi sem gerir þær berskjaldaðar fyrir veðri og vindum. Erfitt aðgengi að flestum mastrastæðum gerir það að verkum að flytja þarf allan búnað, byggingarefni og starfsfólk á staðinn með þyrlu. Með því að draga úr flugtíma eða fjölda ferða má lækka kostnað og minnka neikvæð umhverfisáhrif. Þessar áskoranir gerðu það að verkum að hafist var handa með rannsóknar- og þróunarverkefni sem miðar að því að þróa nýja mastratýpu úr áli fyrir 420 kV kerfið í Noregi. 

EFLA hefur átt stóran þátt í þessu verkefni frá því það hófst 2015 og hefur komið að hönnun mastursins ásamt Statnett og ýmsum aðilum í áliðnaðinum.

Markmið verkefnisins er að:

  1. Auka öryggi með því að stytta tímann sem fer í reisingu mastra
  2. Létta mastrið og þar með fækka þyrluferðum 
  3. Stytta byggingartíma og lækka byggingarkostnað
  4. Minnka heildarkolefnisspor yfir líftíma háspennulínunnar

Fyrsti fasi | Hönnun á frumgerð 

Frumgerð mastursins var hönnuð, byggð og prófuð til að sannreyna hönnunina. Framkvæmdar voru bæði mælingar á styrk mastursins en einnig mælingar á titringi og dempun. Prófanir í vindgöngum voru einnig gerðar til að meta líkur á titringi sem verður vegna iðustrauma í vindinum sem geta leitt til þreytuáhrifa. Prófanir á styrk mastursins og titringi gáfu góðar niðurstöður og mastrið þoldi 130% af hönnunarálagi.

Aluminium towerMörg mastrana eru staðsett í krefjandi landslagi sem er erfitt að komast að.

Mun lægra kolefnisspor álmasturs

EFLA gerði lífsferilsgreiningu á kolefnisspori álmasturs og bar það saman við kolefnisspor staðlaðs stálmasturs. Greiningin leiddi í ljós að þegar tekið er tillit til allra þátta (vinnslu hráefna, hönnunar, framleiðslu, flutnings, byggingar, viðhalds, niðurrifs og endurvinnslu) þá er kolefnisspor álmasturs aðeins 50% af sambærilegu stálmastri.

Annar fasi | Prófun masturs í Nordland

Eftir að fyrsta fasa lauk með vel heppnuðum prófunum ákvað Statnett að halda áfram með verkefnið. Annar fasi fólst í því að hanna mastur sem yrði notað í raunverulegri línu við Kobbvatnet tengivirkið í Nordland í Norður- Noregi sumarið 2019. Mastrið fékk jákvæða umsögn frá línumönnum sem settu mastrið upp og hafa engin vandamál komið upp varðandi mastrið eftir eitt ár í rekstri.

Öflugir samstarfsaðilar

Nú vinnur EFLA, ásamt Norsk Hydro og Statnett, að nýrri hönnun á leggjum fyrir allar mögulegar hæðir á möstrum ásamt ýmsum endurbótum á hönnun til að nýta enn betur sérstöðu áls sem byggingarefnis. Þetta öfluga og alþjóðlega teymi bindur vonir við að þróun á þessum möstrum leiði til þess að álmöstur verði raunverulegur kostur í norska háspennulínukerfinu.

EFLA er þakklát því trausti sem Statnett hefur sýnt EFLU til að takast á við þessa einstöku og krefjandi hönnun. Með rannsóknar- og þróunarverkefni sem þessu er verið að taka mikilvægt skref til að betrumbæta hönnun og byggingu háspennulína ásamt því að draga úr kolefnisspori. Slíkt næst einungis með því að ögra hefðbundum lausnum og vinnubrögðum.