Fréttir


Fréttir

Rannsóknarverkefni um losun gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðum

28.3.2018

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitir árlega styrki til verkefna á málefnasviði ráðuneytisins. EFLA verkfræðistofa, Samband íslenskra sveitarfélaga og Sorpurðun Vesturlands hf. fengu 2 milljón króna styrk til að halda áfram rannsókn þar sem lagt er mat á losun metans frá urðunarstöðum hér á landi sem og oxun metans í yfirborði með mælingum og vöktun. 

  • Rannsóknarverkefni um urðunarstaði
    Alexandra Kjeld, frá EFLU, og Lúðvík Eckardt Gústafsson, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, við gasmælingar við urðunarstaðinn Fíflholt í Borgarnesi.

Metan er ein af tveimur meginlofttegundum sem myndast við niðurbrot úrgangs á urðunarstöðum, en metan er mjög öflug gróðurhúsalofttegund sem nauðsynlegt er að takmarka losun eins og kostur er. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá því í febrúar 2017 er talið að losun gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðum árið 2014 sé um 6% heildarlosunar.

Sameiginlegt rannsóknarverkefni

Um er að ræða framhald af sameiginlegri rannsókn sem verkfræðistofan EFLA, Samband íslenskra sveitarfélaga og Sorpurðun Vesturland hafa unnið að á undanförnum árum. Með verkefninu er lagt mat á raunverulega losun metans frá urðunarstöðum hér á landi sem og oxun metans í yfirborði með mælingum og vöktun.

Þekkt er að hefðbundin gassöfnunarkerfi fanga ekki nema hluta hauggassins sem myndast og þarf því að finna heildstæða og varanlega lausn til að draga úr gróðurhúsaáhrifum urðunarstaða.

Fjölþættur ávinningur

Niðurstöðum rannsóknarinnar er ætlað að svara þeirri spurningu hvort og undir hvaða kringumstæðum oxun metans sé vænleg leið til viðbótar við söfnun hauggass til að draga úr losun metans, sbr. ákvæði rg. 738/2003 um urðun úrgangs. Einnig til að athuga hvort aðferðin geti komið í stað hefðbundinna söfnunarkerfa á þeim stöðum þar sem söfnun getur reynst ýmist tæknilega ógerleg eða óhagkvæm.

Hægt verður að nota niðurstöðurnar til að bæta mat á raunverulegri metanlosun fyrir útstreymisbókhald Íslands, sem í dag gerir ekki ráð fyrir neinni oxun metans. Þá nýtast niðurstöðurnar jafnframt til að endurskoða ákvæði lagaverks um hauggassöfnun ef það á við.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Alexandra Kjeld, alexandra.kjeld@efla.is