Fréttir

Rýmingaráætlun EFLU vegna eldgosa og hlaupa

25.3.2010

Veturinn 2005-2006 var unnið á EFLU að rýmingaráætlun vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli.

  • Eldgos

Rýmingaráætlunin var byggð á skýrslu sérfræðinga um "Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá verstanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli".

Gerð rýmingaráætlunarinnar var unnin í samstarfi og undir verkstjórn Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, sýslumenn og lögreglu í héraði, Neyðarlínuna, Veðurstofu Íslands, Verkfræðistofuna Hnit og Verkfræðistofuna Vatnaskil.

Hlutverk EFLU í rýmingaráætluninni var eftirfarandi:
Hermilíkön og forsendur fyrir umferðarskipulag, kortagerð, gagnaöflun, skipulag á lokunum vega, skipulag rýmingar, skýrslugerð.
Við gerð rýmingaráætlunar er að mörgu að hyggja.

Áætla þarf, hversu margir búa á og dvelja af öðrum ástæðum á rýmingarsvæðinu, staðsetja þarf vistarverur og skipuleggja flóttaleiðir.

Einnig þarf að skipuleggja boðunarleiðir og áætla afköst boðunarkerfisins.

Á því svæði, sem hér um ræðir, eru u.þ.b. 2000 manns með fasta búsetu.

Einnig eru um 500 sumarhús á rýmingarsvæði og fjöldi vinsælla ferðamannastaða, fjallaskálar og gönguleiðir.

Við hermun rýmingar þurfti að skilgreina fjölda ökutækja sem notaður var við rýmingu, hvaðan ökutækin kæmu og eftir hvaða leiðum þeim væri ekið út fyrir skilgreind hættumörk.

Líkt var eftir sumarástandi og vetrarástandi með því að skilgreina umferðarhraða og nýtingu sumarhúsa á mismunandi hátt.

Einnig var líkt eftir ástandi sem hugsanlega myndi skapast þegar margt er um manninn á svæðinu, t.d. fyrstu helgina í júlí eða um verslunarmannahelgina.

Forgangsröðun viðvarana var einnig athuguð en hugsanlega er eðlilegt að þeir sem eiga lengsta flóttaleið fyrir höndum fái upplýsingar fyrr en aðrir.