Fréttir


Fréttir

Samanburður hávaðavísa

10.7.2013

EFLA verkfræðistofa hlaut á vordögum styrk úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar til þess að vinna verkefnið Samanburður hávaðavísa - hljóðmælingar og greining.
  • Samanburður Hávaðavísa

Verkefnið gengur út á að greina nýja hávaðavísa sem notaðir eru við hávaðakortlagningu á umferðarhávaða hér á landi og í Evrópu.

Með tilskipun Evrópuráðsins og -þingsins 2002/49/EC og íslenskri reglugerð nr. 1000/2005 um kortlagningu hávaða og aðgerðaráætlanir, voru hávaðavísarnir Lden (dags-kvölds-nætur hávaðavísir) og Lnight (nætur hávaðavísir) innleiddir. Markmið verkefnisins er að renna stoðum undir notkun nýrra hávaðavísa við kortlagningu umferðarhávaða.

Á Íslandi er enn notast við jafngildishljóðstig Leq sem hávaðavísi samkvæmt reglugerð um hávaða nr. 724/2008. Þó er búið að reikna hávaðakort fyrir mest allt höfuðborgarsvæðið og víðar með hávaðavísinum Lden í tengslum við reglugerð nr. 1000/2005. Mögulegt er að tryggja samfelldni í reglugerðarkröfum og samanburði niðurstaðna með því að þekkja samband nýrra og eldri hávaðavísa.

Með rannsókninni er ætlunin að varpa ljósi á mun hávaðavísanna við íslenskar aðstæður, en rannsóknarniðurstöður erlendis frá hafa ekki verið einróma. Til þess að hægt sé að áætla breytileika í niðurstöðum mismunandi hávaðavísa er mikilvægt að þekkja breytileikann milli Lden og Leq fyrir mismunandi gerðir gatna. Í rannsókninni verður ljósi varpað á breytilega sólarhringsdreifingu umferðar og hávaða á stofnbrautum, tengibrautum og safngötum/húsagötum.

Forsendur hávaðavísanna verða greindar með hljóðmælingum á umferðarhávaða. Mælistaðir á höfuðborgarsvæðinu voru valdir með tilliti til þess að meta áhrif mismunandi gatnagerða á hávaðavísana. Samfelldar tímaraðir umferðarhávaða eru mældar á mælistöðunum samtímis því að umferðarmagn og umferðarhraði eru mæld. Samanburður er síðan gerður á útreiknuðum gildum (Leq, Lden og Lnight) og þau borin saman fyrir sérhvern mælistað sem og milli mælistaða m.t.t. umferðardreifingar, umferðarhraða og hlutfall þungra ökutækja.

Með því að þekkja breytileikann milli hávaðavísanna er hægt að nýta niðurstöður kortlagningar á umferðarhávaða sem best ásamt því að tryggja aukna samfelldni í reglugerðarkröfum og samanburði niðurstaðna.

Hljóðstigsmælingar og umferðargreiningar verða framkvæmdar víðsvegar um höfuðborgarsvæðið núna í sumar, og hafa mælingar þegar verið framkvæmdar við safngötu í Grafarvogi.

IMG 4050