Fréttir

Samfélagssjóður EFLU styrkir 10 verkefni

13.12.2015

Samfélagssjóður EFLU veitir nú sína sjöundu úthlutun. EFLA verkfræðistofa starfrækir samfélagssjóð sem hefur að markmiði að styðja jákvæð og uppbyggileg verkefni í samfélaginu.
  • Samfélagssjóður EFLU 2015
Samtals bárust 67 umsóknir að þessu sinni í alla flokka og hlutu 10 verkefni styrk. Umsóknir voru metnar út frá markmiðum sjóðsins, markmiðum EFLU og áherslum nefndarinnar.


Að venju buðum við styrkþegum að koma og taka við styrkjum sínum við hátíðlega athöfn á skrifstofum EFLU um land allt. Meðfylgjandi mynd hér að ofan sýnir styrkþegana af Höfðuborgarsvæðinu ásamt Guðmundi Þorbjörnssyni framkvæmdarstjóra EFLU.

Verkefnin eru:

Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar

Frá árinu 2012 hefur Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur gert nær 100 konum kleift að stunda nám þrátt fyrir erfiðar fjárhagslegar aðstæður. Konur hafa fengið styrki fyrir skólagjöldum, bókum og í einhverjum tilfellum fengið styrk fyrir tölvukaupum. Sjóðnum er ætlað að hjálpa konum og börnum þeirra að öðlast betra líf með auknum atvinnutækifærum sem menntun gefur.

Náttúruverndarsamtök Íslands

Náttúruverndarsamtökin telja afar mikilvægt að almenningur á Íslandi sé vel upplýstur um ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin er þessa dagana í París. Þar munu þjóðir heims reyna að komast að samkomulagi um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Í því skyni ætla samtökin að upplýsa almenning um málefnið með greinaskrifum, auglýsingum, skipulagningu loftlagsgöngu svo eitthvað sé nefnt.

Fjölskylduhjálp Íslands

Fjölskylduhjálp Íslands var stofnuð árið 2003 og starfar í þágu kvenna, karla og barna í neyð, óháð uppruna þeirra. Aðalstarfsemin fellst í því að aðstoða fátækt fólk með matvæli, lyf, fatnað og ungbarnavörur svo eitthvað sé nefnt. Starfsemin byggist að mestu upp á vinnuframlagi sjálfboðaliða auk stuðnings frá fyrirtækjum, fólkinu í landinu og opinberum aðilum.

Tabú

Á námskeiði Tabú fyrir fatlaðar konur til valdeflingar og sjálfstyrkingar er fjallað um áhrif og afleiðingar fötlunarfordóma, kynjamisréttis, klámvæðingar og ofbeldis á líkamsímynd, kynvitund og stöðu mannréttinda fatlaðra kvenna. Markmið námskeiðsins er að skapa öruggt rými fyrir fatlaðar konur til að deila reynslu sinni án þess að eiga á hættu gagnrýni og stimplun.

Safnahús Borgarfjarðar

Um er að ræða samstarfsverkefni Safnahúss og Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Verkefnið miðar að aukinni listsköpun í skólastarfi og miðlun menningararfs en það felst í því að vinna með ljóð eftir skáldið Snorra Hjartarson. Næsta vor verða haldnir tónleikar þar sem afrakstur vinnunnar verður fluttur.

Stuttmynd um viðkvæma hópa sem leiðst geta út í notkun eiturlyfja

Gerð stuttmyndar í forvarnarskyni, með áherslu á viðkvæman hóp barna, unglinga og fjölskyldna þeirra sem leiðst geta út í notkun eiturlyfja. Pétur Guðjónsson höfundur handritsins hefur starfað sem meðferðarfulltrúi til margra ára og þekkir þannig þann heim sem fjallað er um í myndinni.  

--Styrkur afhentur á Akureyri--

Zontaklúbbur Akureyrar

Bjóða á erlendum konum sem eru heimavinnandi með ung börn/eða barnshafandi upp á einstaklingsmiðað íslenskunámskeið þar sem kennt er í fámennum hópi.  

--Styrkur afhentur á Akureyri--

Áfallateymi Austurlands

Áfallateymi Austurlands er samstarf stofnanna á Austurlandi sem hafa unnið saman að fræðslu, forvörnum og sálgæslu eftir áföll sem hafa átt sér stað í samfélaginu á undanförnu.  

--Styrkur afhentur á Egilsstöðum--

 Fimleikadeild Leiknis Fáskrúðsfirði

Fimleikadeild Leiknis var formlega stofnuð 2014. Var það gert í framhaldi af mjög jákvæðum viðbrögðum við samreknum fimleikaæfingum með frjálsíþrótta- og blakdeild Leiknis. Er nú svo komið að um 80 ungmenni á aldrinum 3 til 16 ára stunda íþróttina.  

--Styrkur afhentur á Reyðarfirði--

Fimleikadeild Ungmennafélags Selfoss

Fimleikadeild Ungmennafélags Selfoss hefur vaxið og dafnað síðustu ár og í dag er deildin stærsta íþróttadeildin á Selfossi. Árangur iðkenda hefur vakið eftirtekt og hampar meistaraflokkur deildarinnar í blönduðu liði nú Íslandsmeistaratitli og er einnig bikar- og deildarmeistari í hópfimleikum 2015.  

--Styrkur afhentur á Selfossi--

samfsj haust 15 selfoss

Hér má sjá Pál Bjarnason, svæðisstjóra EFLU Suðurland ásamt Evu Grímsdóttur, fyrirliða meistaraflokks fimleikadeildar Selfoss, sem veitti styrknum viðtöku og Þóru Þórarinsdóttur formanni fimleikadeildar UMF Selfossi.

Tekið er á móti umsóknum í samfélagssjóðinn allt árið um kring en úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári, að vori og hausti. EFLA verkfræðistofa óskar nýjum styrkhöfum innilega til hamingju og alls hins besta í framtíðinni.