Fréttir


Fréttir

Seinni vélasamstæða Þeistareykjavirkjunar gangsett

11.5.2018

Framkvæmdum við nýjustu jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar, Þeistareykjavirkjun, er að ljúka og eru báðar 45 MWe vélasamstæður virkjunarinnar komnar í rekstur. EFLA kom að verkefninu og sá m.a. um framkvæmdaeftirlit með byggingu stöðvarhúss, lagningu gufuveitu og forritun stjórnkerfis.

  • Þeistareykir
    Frá Þeistareykjavirkjun.

Framkvæmdir við virkjunina hófust í júní 2015, þegar verktakafyrirtækið Munck Íslandi (áður LNS Saga) hóf vinnu við uppsteypu stöðvarhúss og stuttu síðar hófst jarðvinna við gufuveitu. Í upphafi voru tveir starfsmenn EFLU við framkvæmdaeftirlit á svæðinu og árið 2016 og fyrri helming ársins 2017, þegar framkvæmdir stóðu sem hæst, sinntu fimm starfsmenn EFLU framkvæmdaeftirliti á verkstað.

Í apríl 2017 tók Sigurjón Sigurjónsson verkefnisstjóri hjá EFLU við starfi staðar­verkfræðings við virkjunarframkvæmdirnar en venjulega sinnir starfsfólk Landsvirkjunar þessu starfi. Aðalstarf staðarverkfræðings er að samræma vinnu þeirra mörgu verktaka sem koma að framkvæmdunum og fylgjast með framvindu og tímaáætlunum. Hann tengist einnig ÖHU málum (öryggi-, heilbrigði- og vinnuumhverfi) á vinnusvæðinu og ber ábyrgð á rekstri vinnubúða Landsvirkjunar sem eru til afnota fyrir marga af verktökum svæðisins.

EFLA kom að byggingu stöðvarhúss og lagningu gufuveitu með fjölbreyttum hætti, eins og t.d.:

  • Steinsteypu og jarðvinnu
  • Stálvirkjum
  • Loftræsingu
  • Pípulögnum – innanhúss og utan sem og gufupípum
  • Rafkerfum
  • Frágangi innanhúss og utan

Byggingu stöðvarhússins og lagningu gufuveitu lauk í árslok 2017.

Fyrri vélasamstæða

Í byrjun desember 2017 tók Landsvirkjun formlega við fyrri 45 MWe vélasamstæðu frá framleiðendunum Fuji Electric og Balcke-Dürr. Í lok ársins lauk Munck Íslandi við síðasta hluta gufuveitu og Landsvirkjun tók aftur yfir starf staðarverkfræðings. Um miðjan apríl 2018 tók Landsvirkjun formlega við seinni 45 MWe vélasamstæðunni og rekstur beggja samstæðna er nú á ábyrgð Landsvirkjunar.

Stjórnkerfi og fjarskiptakerfi Þeistareykjavirkjunar

EFLA er undirverktaki ABB AS, Balcke-Dürr GmbH og Fuji Electric Co. Ltd. vegna stjórnbúnaðar við Þeistareykjavirkjun. EFLA bar ábyrgð á forritun ABB 800xA DCS kerfisins, sá um merkja- og virkniprófanir og gangsetningu stjórnkerfis virkjunarinnar. Umfang vinnu EFLU var stýring gufuveitu, kaldavatnsveitu, rafdreifingar, kalda enda og samhæfing stýringar á hverflum og rafölum við DCS kerfið. EFLA hannaði einnig DCS stjórnskápa fyrir kalda endann, hverfla og rafala.

EFLA sá um viðamiklar prófanir á stjórnkerfi, þ.á.m. uppsetningu og nákvæmar prófanir á öllu DCS kerfinu, nettengingum og öllum öðrum mikilvægum þáttum á verkstæði á Akureyri. Allir verktakar, Landsvirkjun og ráðgjafar tóku þátt í þessum prófunum sem tóku einn mánuð.

Vinna starfsmanna EFLU á verkstað var umfangsmikil, s.s. áætlunargerð, umsjón með og framkvæmd á merkjaprófunum, samhæfing, þátttaka í keyrsluprófunum og reynslurekstri. EFLA tók einnig að sér hlutverk ÖHU-stjóra fyrir einn af samningunum.

Vinna við verkefnið hófst í janúar 2016 og hefur verið í gangi síðan með allt að 7 starfsmenn, þegar prófunarvinna stóð sem hæst.

EFLA hefur öðlast verulega reynslu og aukið færni sína á sviði sjálfvirkni í jarðvarmavirkjunum í gegnum þetta verkefni og er vel í stakk búin til að taka að sér fleiri verkefni á sviði jarðvarmavirkjana. EFLA mun þjónusta búnað Þeistareykjavirkjunar í framtíðinni.

Fjölbreytt jarðvarmaverkefni víðs vegar að

EFLA hefur sífellt verið að láta meira til sín taka í jarðvarmageiranum á síðustu árum. Þeistareykjavirkjun er fyrsta jarðvarmavirkjunin á Íslandi þar sem EFLA gegnir mikilvægu hlutverki við byggingu, umsjón og gangsetningu. Hins vegar hefur EFLA á síðustu 10 árum unnið að jarðvarmaverkefnum í Afríku, Asíu, Evrópu og Norður-og Suður Ameríku. 

EFLA hefur tekið þátt í tveimur gerðardómsmálum tengdum ON, HS Orku og Century Aluminium, þar sem um var að ræða forhönnun og rannsókn á hagkvæmni 90 MWe virkjunar í Hverahlíð. Einnig var framkvæmd rýni á stofn- og rekstrarkostnaði fyrir núverandi virkjanir HS Orku og nokkra mögulega nýja virkjanakosti HS-Orku í jarðvarma. Þá kom EFLA að endurbótum á stækkun á baðlónskerfum hjá Bláa lóninu og hannaði nýtt lúxushótel sem tekið var í notkun í apríl 2018.

EFLA óskar Landsvirkjun til hamingju með nýju jarðvarmavirkjunina og þakkar ánægjulegt samstarf í verkefninu.