Fréttir


Fréttir

Skrifað undir sáttmálann Nordic Built

30.8.2012

Þann 8. ágúst undirrituðu 20 stjórnendur úr norræna byggingaiðnaðinum Nordic Built sáttmálann í Kaupmannahöfn og sýndu þar með vilja sinn til breytinga.

Með undirskriftinni skuldbinda þeir sig til þess að fylgja tíu meginreglum í starfi sínu og fyrirtækja sinna og að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að þróa samkeppnishæfar lausnir í sjálfbærri mannvirkjagerð.

Í samræmi við stefnu EFLU verkfræðistofu að vera leiðandi í umræðu um umhverfisvæna valkosti hefur EFLA skrifað fyrst verkfræðistofa á Íslandi undir sáttmála Nordic Built sem hvetur til þróunar á samkeppnishæfum lausnum í vistvænni mannvirkjagerð. Undanfarna mánuði hefur Helga Jóhanna Bjarnadóttir fyrir EFLU tekið þátt í undirbúningi sáttmálans ásamt 60 öðrum stjórnendum úr norræna byggingaiðnaðinum. Þann 13. september verður haldinn fundur í Reykjavík þar sem aðilum í byggingaiðnaðinum býðst að skrifa undir sáttmálann og vera þátttakandi í verkefninu.

Markmið Nordic Built verkefnisins er að byggingamarkaðurinn sameinist um að nýta sérþekkingu sína til þess að mæta aukinni eftirspurn eftir vistvænni mannvirkjagerð í heiminum, vera leiðandi í nýsköpun, grænum hagvexti og velferð. EFLA verkfræðistofa ásamt öðrum leiðandi fyrirtækjum í greininni hafa nú þegar tekið fyrstu skrefin og hvetja aðra til þess að gera hið sama.

Nú þegar hefur EFLA verkfræðistofa unnið um nokkurt skeið eftir þeim þáttum sem koma fram í sáttmálanum. Í umhverfisstefnu EFLU kemur meðal annars fram að starfsmenn eru hvattir til vistvænnar hönnunar, stuðla að betri nýtingu aðlinda, minni sóun hráefna og aukinni endurnýtingu og endurvinnslu. Þetta endurspeglast meðal annars í neðangreindum verkefnum sem EFLA verkfræðistofa hefur fengist við að undanförnu:

  • Vistvæn nálgun og góð innivist í hönnun Nýja Landsspítala Háskólasjúkrahúss
  • Hjólreiðaráætlun fyrir Kópavogsbæ til að auka veg hjólreiða sem samgöngumáta í Kópavogi, þannig að hjólreiðar verði aðgengilegur, skilvirkur og öruggur ferðamáti.
  • Þróun háspennulínu mastra þar sem tekið er tilliti til efnisnotkunar, ásýndarmála, takmörkunar jarðrasks, hljóðáhrifa og segulsviðsáhrifa.
  • Bæta virkni rykhreinsibúnaðar í áliðnaði til að draga úr mengun.
  • Rafvæðing loðnuverksmiðja sem dregur úr olíunotkun og CO2 losun sem minnkar mengun.
  • Útreikningur á lífferilskostnaði (Life Cycle Costing) bygginga.
  • Vistvænar ofanvatnslausnir/fráveitulausnir m.a. í Urriðaholtinu
  • Vistferilsgreiningar (Life Cycle Assesment) og útreikningar á kolefnisspori fyrir vatnsafl Fljótsdalsstöðvar.

EFLA er stolt af því að vera þátttakandi að mótun sáttmálans og vera fyrst verkfræðistofa á Íslandi til að skrifa undir. Með þessu viljum við leggja línurnar til framtíðar.

Sáttmálinn

Sjá nánar á heimasíðu Nordic Built.

undirskrift_helgu

undirskriftin