Fréttir


Fréttir

Skýrsla um þolmörk í ferðaþjónustu

Ferðaþjónusta, Álagsmat, Þolmörk, Stjórnstöð ferðamála, Áfangaskýrsla

15.10.2018

Komin er út skýrsla sem er áfangaskýrsla í mati á álagi á umhverfi, innviði, efnahag og samfélag vegna fjölda ferðamanna sem EFLA, ásamt samstarfsaðilum, vann fyrir Stjórnstöð ferðamála. Í skýrslunni er kynnt kerfi til að framkvæma mat á álagi en það byggir á 66 vísum sem þróaðir voru í samráði við hagsmunaaðila. Annar áfangi verkefnisins er nú að hefjast og felur hann í sér framkvæmd á sjálfu matinu. Áfanga þessum lýkur vorið 2019. 

  • 1. áfangi þróun vísa fyrir álagsmat
    Áfangaskýrsla vegna álagsmats í ferðaþjónustu er komin út.

Undanfarin ár hefur fjölgun ferðamanna á Íslandi verið mikil og ferðaþjónusta orðin ein stærsta atvinnugrein landsins. Fjölgun ferðamanna hefur leitt til aukins álags á grunninnviði samfélagsins. Fótspor ferðamannsins við dvöl sína hér á landi má í einfaldri mynd kortleggja sem notkun á grunninnviðum, svo sem flugvöllum, höfnum og vegakerfi, húsnæði til gistingar, veitingum og þjónustu, áfangastöðum og afþreyingu, bæði innan byggðar og í náttúru landsins. Ferðamaðurinn veldur einnig álagi á ýmsa aðra innviði, til dæmis fráveitur og úrgangs­meðhöndlun og á stoðþjónustu á sviði heilbrigðismála, löggæslu, öryggismála, auk þess að hafa áhrif á samfélag og umhverfi.

Álagsmat nýtist við mótun framtíðarstefnu

Sjálfbærni ferðaþjónustu er mikilvæg og af þeim ástæðum ákvað stjórn Stjórnstöðvar ferðamála að setja af stað vinnu við álagsmat umhverfis, innviða og samfélags gagnvart fjölda ferðamanna hér á landi og var EFLA valin til verksins úr hópi fleiri ráðgjafafyrirtækja. Verkefnið hófst haustið 2017 og er tilgangur þess að leggja mat á álag á innviði, umhverfi og samfélag á Íslandi byggt á fyrirliggjandi gögnum. Fyrri áfanga verkefnis er nú lokið og birt hefur verið skýrsla með tölulegum vísum sem notaðir verða í álagsmatinu. 

Í seinni áfanga verkefnisins sem fyrirhugað er að hefjist í október verða vísarnir gildissettir þar sem metið verður hvort þolmörkum hafi verið náð. Álagsmatið nýtist við mótun framtíðarstefnu Íslands í ferðaþjónustu og sem tæki við stjórnun með það að markmiði að tryggja sjálfbærni greinarinnar til lengri tíma.

Aðkoma EFLU að verkinu

EFLA sá um verkefnisstjórnun í samstarfi við Stjórnstöð ferðamála, utanumhald verkhópa og samráð, greiningarvinnu og skýrslugerð. Samstarfsaðilar EFLU voru erlendir ráðgjafar; Tourism, Recreation, Conservation (TRC) frá Nýja Sjálandi og Recreation and Tourism Science (RTS) frá Bandaríkjunum.

Kynningarfundur fyrir verkhópa sem taka munu þátt í seinni áfanga verkefnisins  var haldinn hjá EFLU þriðjudaginn 16. október en þar voru helstu niðurstöður fyrri áfanga kynntar sem og markmið annars áfanga. Ráðgjafar frá RTC og RTS héldu einnig erindi fyrir fundargesti.

Skýrsla | Álagsmat, áfangi 1

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Ólafur Árnason, fagstjóri skipulagsmála hjá EFLU.

Fundur með Stjórnstöð ferðamálaKynningarfundur fyrir vinnuhópinn var haldinn hjá EFLU.

Fundur með Stjórnstöð ferðamálaRáðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, var meðal fundargesta.

Fundur með Stjórnstöð ferðamálaÓlafur Árnason hjá EFLU fór yfir verkefnið.

Fundur með Stjórnstöð ferðamálaFundargestir skoða fyrstu áfangaskýrsluna.