Fréttir


Fréttir

Stærstu manngerðu ísgöngin

15.4.2015

EFLA hefur frá árinu 2010 unnið að undirbúningi Ísganga í Langjökli. Á fyrstu stigum verkefnisins var til athugunar hvort hugmyndin að svo stórum göngum hátt í Langjökli væri tæknilega og jöklafræðilega raunhæf. Erlend sambærileg verkefni voru könnuð og kostnaður við gerð ganganna metinn. EFLA þróaði verkefnið allt fram til ársloka 2013 þegar samið var um yfirtöku þess við fjárfestingarsjóð á sviði nýjunga í ferðaþjónustu á Íslandi.
  • Ísgöngin í Langjökli

Um er að ræða yfir 7000 m3 göng í hjarni og jökulís Langjökuls. Það gerir þau að stærstu manngerðu ísgöngum fyrir almenning í heiminum eftir því sem best er vitað. Göngin er grafinn út með stórum gröfum og hjólaskóflum en það fyrirkomulag kallar á mikla loftræstingu á verktíma.

EFLA sér um útfærslu verkefnisins í samvinnu við sýningarhönnuði, hannar lýsingu, loftræstingu, afvötnun og raflagnir ásamt því að halda utan um öll umhverfismál, öryggismál og skipulags- og leyfismál. Við allar útfærslur þarf að taka tillit til hreyfinga í ísnum en göngin hníga rólega saman með tímanum undan þeim þunga sem hvílir ofan á þeim. Dýpstu hlutarnar minnka það hratt að reglulega mun þurfa að víkka þau út. EFLA hefur umsjón með nákvæmum mælingum á hreyfingunum í ísnum í samvinnu við Háskóla Íslands. Til stendur að vinna rannsóknarverkefni um hnigið á komandi árum.

Aldrei áður hafa svo löng göng verið grafin í jökulís með þessum hætti í heiminum og mjög lítið er til skrifað um gröft í jökulís í fagtímaritum á sviði verkfræði. Því mun þetta verkefni auka þekkingu á þessu sviði sem vonandi mun hafa hagnýtt gildi í framtíðinni.