Fréttir

Starfstækifæri kynnt á Austurlandi

4.9.2018

Á Egilsstöðum var um helgina haldin náms- og atvinnulífssýningin Að heiman og heim. EFLA tók þátt í sýningunni en markmið hennar var að kynna fyrir ungu fólki fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri á Austurlandi. 

  • EFLA Austurland
    Frá Austurlandi.

Fjöldi fólks sótti sýninguna, sem fór fram laugardaginn 1. september, og fræddist um margvísleg starfstækifæri á Austurlandi. Um 50 fyrirtæki og stofnanir tóku þátt og veittu innsýn í daglega starfsemi sína. Einnig fóru fram fyrirlestrar um málefni tengd menntun og ráðleggingar veittar um hvernig megi ná starfstengdum markmiðum.

Mannauður framtíðarinnar

Auðlindir EFLU eru fólgnar í starfsfólkinu, þekkingu þeirra og reynslu og því var ánægjulegt að taka þátt í sýningunni og spjalla við mannauð framtíðarinnar. Fjölmargir litu við í kynningarbás EFLU og spjölluðu við starfsfólkið um vinnustaðinn og helstu verkefni. Margir voru áhugasamir um námsferil og bakgrunn starfsmanna en hjá EFLU á Austurlandi starfa um 20 manns með fjölbreytta þekkingu og menntun.

Félagið Ungt Austurland stóð fyrir sýningunni og er verkefnið eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Austurlands.

EFLA Austurland 2Á kynningarbás EFLU var hægt að fræðast nánar um vinnustaðinn.