Fréttir


Fréttir

Snæfellsstofa hlýtur Steinsteypuverðlaunin 2016

26.2.2016

Föstudaginn 19.febrúar fór fram Steinsteypudagurinn á Grand Hótel en hápunktur dagsins er afhending Steinsteypuverðlaunanna sem veitt voru í fimmta sinn.
  • Snæfellsstofa
    Mynd af Snæfellsstofu: Arkís

Snæfellsstofa hlýtur Steinsteypuverðlaunin 2016

steinsteypuv 2016Fulltrúar þeirra fyrirtækja sem hönnuðu og byggðu Snæfellsstofu

Að þessu sinni var það Snæfellsstofa, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs að Skriðuklaustri, sem hlaut verðlaunin. Var það álit dómnefndar að í verkinu hafi hönnuðum tekist með efnisvali og formi, að skírskota til umhverfisins í ágætu samspili og köllun til náttúrunnar og allt verkið afar faglega leyst.

Um hönnunina sáu ARKÍS arkitektar, EFLA og Verkís, en framkvæmdin var í höndum VHE vélsmiðju og steypan kom frá Steypustöðinni Egilsstöðum. Við hönnunina var lögð sérstök áhersla á tengsl byggingarinnar við umhverfið og vistvæn sjónarmið höfð í hávegum.

EFLA sá um hönnun á burðarþoli, lagnakerfum að undanskildum rafkerfum, sem og bruna- og öryggishönnun fyrir húsið. Einnig veitti EFLA ráðgjöf vegna vistvænnar hönnunar samkvæmt breska umhverfisstaðlinum BREEAM, en Snæfellsstofa er fyrsta vistvænt vottaða bygging landsins samkvæmt honum. Lagt var mat á visthæfni mismunandi byggingarefna t.d. útveggja, þakefna, klæðningarefna og innveggja, sem og landslagsefna sem notuð voru við framkvæmdina.

Steinsteypuverðlaunin voru fyrst veitt árið 2010 og þá urðu fyrir valinu göngubrýr yfir Njarðargötu og Hringbraut, sem EFLA hannaði ásamt Studio Granda.

Nemendaverðlaun

Við sama tilefni voru tvö nemendaverkefni sérstaklega heiðruð, en svo skemmtilega vill til að þau tengjast bæði EFLU.

Annars vegar var það hún Anna Beta Gísladóttir, byggingarverkfræðingur hjá EFLU, sem hlaut viðurkenningu fyrir lokaverkefnið sitt, Burðarþolsgreining á járnbentum steypustrendingum með stafrænni myndgreiningartækni. Framkvæmdi hún tilraunir á járnbentum steypustrendingum og beitti starfrænni myndgreiningartækni (e. Digital Image Correlation Technique) við greiningu og var eitt helsta markmið verkefnisins að kanna notkunarmöguleika tækninnar nánar við greiningu á sprungumyndun, samvirkni bendistáls og steypu og brothegðun í járnbentum steypustrendingum undir togálagi.

Einnig var hann Guðmundur Úlfar Gíslason heiðraður fyrir lokaverkefni sitt í byggingartæknifræði en hann vann verkefnið í samvinnu við EFLU,þar sem verklegi hluti var unnin á rannsóknarstofu EFLU. Verkefnið fólst í að hanna og prófa veðurkápu á forsteyptum útveggjaeiningum með basalttrefjabendingu, en leiðbeinandi hans í verkefninu var Guðni Jónsson, byggingarverkfræðingur hjá EFLU. Verkefni Guðmundar Úlfars gekk út á að kanna hvort hægt væri að nýta basalttrefjamottu til styrkingar steypu í stað hefðbundins kambstáls og með því létta eininguna og spara hráefni.

Guðmundur Úlfar Gíslason og Anna Beta Gísladóttir hlutu nemendaverðlaun Steinsteypufélagsins 2016