Fréttir


Fréttir

Stórbætt Listasafn opnað

31.8.2018

Listasafnið á Akureyri var opnað laugardaginn 25. ágúst eftir stækkun og heilmiklar endurbætur á húsnæðinu. Sýningarsölum var fjölgað, kaffihús tekið til starfa og safnabúð opnuð.

  • Listasafnið á Akureyri
    Listasafnið á Akureyri

Markmið framkvæmdanna var að sameina gamla listasafnið og Ketilhúsið, bæta aðgengi, fjölga salarkynnum og auka notkun hússins með nýju kaffihúsi og safnabúð. Í gamla listasafninu var farið í aðgerðir til að koma fyrir veitingastað og tengja hæðirnar saman með nýjum stiga og lyftukjarna sem ekki var til staðar. Til að koma fyrir kaffihúsi á neðstu hæð byggingarinnar þurfti að rífa burt gólfplötu fyrstu hæðar og steypa nýja.

Krefjandi og áhugavert

EFLA sá um burðarþolshönnun vegna endurbóta á listasafninu. Verkið var tvíþætt og fól það í sér hönnun tengibyggingar á milli gamla listasafnsins og Ketilhússins ásamt hönnun vegna breytinga á gamla listasafninu. Verkefnið var í senn krefjandi og áhugavert sér í lagi þar sem unnið var að endurgerð gamallar byggingar sem byggð er í bratta brekku. 

Framkvæmdir við endurbæturnar stóðu yfir í rúmt ár en EFLA kom að verkefninu í byrjun árs 2016.  Arkitektar vegna endurbótanna voru Kurt og Pí.

EFLA óskar Akureyrarbæ og bæjarbúum til hamingju með nýtt og glæsilegt Listasafn og þakkar samstarfsaðilum fyrir gott samstarf í verkefninu.