Fréttir


Fréttir

Stórri samgönguframkvæmd í Noregi lokið

9.1.2013

Solasplitten, sem er 4 km langur vegur á Stavanger svæðinu í Noregi var nýverið opnaður fyrir umferð við hátíðlega athöfn. Það var norska vegagerðin (Statens vegvesen) sem sá um lagningu vegarins.
  • Fjögurra akreina vegur við Solasplitten
    Mynd af brú eftir ljósmyndarann Ole Harald Dale

Solasplitten er 4 akreina vegur sem tengir saman alþjóða flugvöllinn í Sola/Stavanger og E39 hraðbrautina. Einnig tengir vegurinn flugvöllinn betur við Forus, sem er svæði þar sem mörg af helstu tækni- og iðnaðarfyrirtækjunum í olíugeiranum eru staðsett með skrifstofur og framleiðslu (m.a. eru höfuðstöðvar Statoil í Forus). Forus hefur vaxið mjög hratt á síðustu árum og mikill fjöldi fólks sem þar starfar og því mikilvægt að umferðartengingar inn og út úr hverfinu séu sem allra bestar.

Verkið fólst eins og áður segir í uppbyggingu á 4 akreina vegi sem inniheldur m.a. fern mislæg gatnamót, tvær göngubrýr, ein jarðgöng (300m löng), einn steyptan stokk (300m langan) og ein undirgöng fyrir gangandi og hjólaumferð auk þess sem ofanvatnsskurður var lagður í stokk undir veginn sem jafnframt er þannig útfærður að froskar og önnur smádýr eigi greiða leið þar um. Einnig voru byggðar 3 settjarnir auk fjölda stoðveggja, hljóðmana og -skjerma. Heildarkostnaður við verkið var um 600M NOK. Framkvæmdir hófust sumarið 2010 og vegurinn var opnaður 18.12. sl. Eftir stendur enn að ljúka uppgræðslu á svæðum meðfram veginum auk þess sem hljóðvarnaraðgerðum á nokkrum húsum er ólokið. Áætlað er að öllu verði lokið um mitt þetta ár.

EFLA hefur komið að verkinu frá miðju ári 2009 en þá hófst hönnunin. EFLA sá um hönnun á ofanvatnskerfi vegarins og settjörnum, sem einnig höfðu það hlutverk að miðla ofanvatninu inn í yfirlestuð fráveitukerfi sveitarfélaganna. Þá sá EFLA einnig um hönnun á færslu allra lagna sveitarfélaganna sem færa þurfti vegna vegarins. Á framkvæmdastiginu hefur EFLA séð um samræmingu hönnunar og utanumhald á öllum breytingum sem gerðar hafa verið á hönnuninni.

Solasplitten  Tore BrulandMynd frá opnunarathöfn, ljósmyndari Tore Bruland.