Fréttir

Nýsköpunar- og þróunarverkefni í áliðnaði

27.2.2018

Álklasinn er hugsaður sem samstarfsvettvangur fyrir fyrirtæki sem tengjast áliðnaðinum og á m.a. að gera þeim kleift að vinna að sameiginlegum verkefnum og vinna að nýsköpun. EFLA er einn af samstarfsaðilum Álklasans og tekur virkan þátt í nýsköpunar- og þróunarverkefnum tengdum áliðnaðinum. 

  • Alklasinn---verdlaunahafar-og-styrktaradilar
    Verðlaunahafar hvatningarviðurkenningar ásamt fulltrúum styrktaraðila.

Í síðustu viku fór fram Nýsköpunarmót Álklasans. Um 100 manns hlýddu á framsögumenn frá atvinnulífinu og fræðasamfélaginu og voru flutt áhugaverð erindi, örkynningar og nemendakynningar. Mótinu er einnig ætlað að tengja saman háskólasamfélagið og áliðnaðinn og hvetja nemendur til dáða hvað varðar rannsóknir. Þá var fjórum háskólanemum veitt hvatningarverðlaun fyrir verkefni sem þau vinna að tengdum áliðnaði.

Sjálfvirk ástandsgreining á deiglum

Meðal fyrirlesara á Nýsköpunarmótinu var Agnar Sveinsson, rafmagnsverkfræðingur hjá EFLU, og fjallaði hann um sjálfvirka ástandsgreiningu á deiglum. Deiglur eru ílát sem eru einangruð að innan og sjá um að flytja 700 gráðu heitt ál úr pottum þar til það er steypt. Eftir ákveðinn tíma eyðist einangrunin og getur deiglan farið að leka. Með sjálfvirkri ástandsgreiningu með hitamyndavélum er hægt varpa ljósi á einangrunina í deiglunni og í kjölfarið hægt að bregðast við. Þannig má koma í veg fyrir að deiglurnar leki með tilheyrandi hættu fyrir starfsmenn á staðnum og fjárhagstjóni.

Rannsóknarverkefni tengd háskólasamfélaginu

EFLA tekur virkan þátt í rannsóknarverkefnum með háskólunum og er jafnframt einn af styrktaraðilum verðlaunanna. Tvö þeirra áhugaverðu meistaraverkefna sem fengu hvatningarviðurkenningu Álklasans í ár voru unnin í tengslum við EFLU. 

Annars vegar er verkefni Matthíasar Hjartarsonar, „Machine learning for detection of Cryolite electrolyte residue on dark surfaces, in an uncontrolled environment.“, sem fjallar um notkun gervigreindar í myndgreiningu fyrir áliðnaðinn. EFLA hefur einmitt þróað þjónustu á sviðinu og er í dag leiðandi á markaði þegar kemur að myndgreiningu fyrir áliðnaðinn. 

Hins vegar er meistaraverkefni Leós Haraldssonar, „Hitaveita með varmaendurvinnslu frá Fjarðaál - fýsileikagreining“, sem fjallar um hvort og þá með hvaða hætti er hægt að nýta umframorku sem fellur til hjá álverinu á Reyðarfirði til húshitunar í bænum. 

Nánari upplýsingar um hitaeftirlit og myndgreiningu hjá EFLU.

Verdlaunahafar2Nemendurnir sem hlutu hvatningarviðurkenningu Álklasans, frá vinstri: Kevin Dillman HÍ, Regína Þórðardóttir HÍ, Leó Blær Haraldsson HR, Matthías Hjartarson HR, Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir framkvæmdastjóri Álklasans.

Dr.-AlamdariFrá Nýsköpunarmótinu.