Fréttir


Fréttir

Tíu verkefni fá styrk úr samfélagssjóði EFLU

15.12.2016

Samfélagssjóður EFLU veitir nú sína níundu úthlutun. Samtals bárust 111 umsóknir að þessu sinni í alla flokka og hlutu 10 verkefni styrk. Samfélagssjóðurinn var stofnaður 2013 í tilefni af 40 ára afmæli fyrirtækisins og hefur að markmiði að styðja jákvæð og uppbyggileg verkefni í samfélaginu. Alls hafa 57 frábær verkefni verið styrkt af sjóðnum.
  • Samfélagssjóður EFLU
    Meðfylgjandi mynd hér að ofan sýnir styrkþegana frá höfuðborgarsvæðinu ásamt Arinbirni Friðrikssyni stjórnarformanni EFLU, Helgu Jónu af mannauðssviði og Aldísi Rún Lárusdóttur frá úthlutunarnefndinni.

Verkefnin sem hlutu styrk að þessu sinni eru:

Raddir, samtök um vandaðan upplestur

Samtök um vandaðan upplestur sem halda utan um stóru upplestrarkeppnina sem hefst á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember ár hvert. Keppnin fer fram um allt land og er fyrir 7. bekki í grunnskóla. Allt starf í kringum keppnina er unnið í sjálfboðavinnu í grunnskólum landsins af áhugafólki um vandaðan upplestur og framsögn. Styrkurinn fer upp í verðlaunafé barnanna.

Styrktarfélag TR

Team Rynkeby er samnorrænt góðgerðarverkefni sem felst í að safna fé til styrktar krabbameinssjúkum börnum með því að hjóla til Parísar, alls um 1.200 km leið. Ísland verður núna með í fyrsta sinn og renna þeir fjármunir sem liðið safnar óskertir til krabbameinssjúkra barna og til rannsókna á krabbameini hjá börnum á Íslandi.

Batamiðstöðin á Kleppi

Batamiðstöðin á Kleppi er hugsuð sem brú út í samfélagið fyrir fólk með geðraskanir. Markmið batamiðstöðvarinnar eru m.a. að veita stuðning í félagslegum athöfnum og auka val á leiðum til að styðja við bata fólks með geðraskanir. Styrkurinn fer í að bæta tækjabúnað og aðstöðu og þar með bæta þjónustu við notendur.

Aldur jarðskorpunnar fyrir krakka

Umsækjandinn er jarðeðlisfræðingur og hefur ástríðu fyrir að fræða krakka um jarðvísindi og af hverju náttúruöflin eiga sér stað. Umsækjandi hefur útbúið litríkt kort sem getur auðgað þekkingu skólabarna og þar með almennings á flekahreyfingum jarðarinnar. Styrkurinn er notaður til að prenta út kortið og gefa grunnskólum og leikskólum í Kópavogi. Kynning og fræðsla sem fylgir í kjölfarið er unnin í sjálfboðastarfi af hálfu umsækjanda.

Tónlistariðkun fólks með Alzheimer og aðra heilabilunarsjúkdóma

Tónlist hefur mikil og góð áhrif á líðan fólks með heilabilun. Umsækjandi skrifaði um viðfangsefnið í meistararitgerð sinni sem bar nafnið „Það er eins og það lifni eitthvað inn í mér". Umsækjandi hyggst helga þessum málaflokki starfsorku sína, með því að vinna sjálfstætt og fara á milli dagþjálfana og hjúkrunarheimila og vinna með skjólstæðingum sem og starfsfólki með tónlistina. Styrkurinn fer í hljóðfærakaup.

Efla raungreinafærni með liðsinni skákar

Skák skipar sérstakan sess í menningarsögu Íslands. Það hefur sýnt sig í sálfræðilegum rannsóknum að skák hefur talsvert sóknarfæri þegar kemur að því að stuðla að aukinni raungreinafærni. Verkefnið snýst um að búa til App sem með vísindalegum og sannarlegum hætti eflir færni í sálfræðilegum þáttum sem skipta máli fyrir raungreinar. Þar má nefna einbeitingu, rýmnisgreind, athyglisfærni og bætingu minnis. Styrkurinn verður notaður til að ýta úr vör verkefninu með nemendum í tölvunarfræði í Háskóla Reykjavíkur.

Vélar, kraftur og nýsköpun, tæknilegó í Borgarhólsskóla

Borgarhólsskóli á Húsavík er 300 nemenda skóli sem hefur góða raun af því að nota tæknilegó í námi á unglingastigi þar sem nemendum gefst m.a. kostur á að smíða vélar og vinna með vökvakerfi. Nú stendur til að stækka verkefnið og bjóða fleiri nemendum upp á þennan valmöguleika. Styrkurinn verður notaður til kaupa á tæknilegó.

UMF Þristur hjólið

Hjólakraftur er nýtt verkefni á Austurlandi sem Ungmennafélagið Þristur hefur yfirumsjón með. Markmið Hjólakrafts er að bæta við hreyfimöguleikum fyrir unglinga sem eru til dæmis að flosna upp úr keppnisíþróttum eða finna sig ekki í hefðbundnum íþróttum. Styrkurinn verður notaður til kaupa á hjóli sem ungmennin geta notað á æfingum.

Mæðrastyrksnefnd vegna skólaverkefnis

Fátækt barna á Íslandi er stórt vandamál. Hjálparsamtök bágstaddra barna hafa það markmið að draga úr takmarkandi aðstæðum á líf og hamingju barna sem auðvitað bera enga sök á aðstæðunum. Samtökin söfnuðu í fyrir skólatöskum og skólavörum fyrir börn en samfélagssjóður EFLU styrkti það verkefni.

Neyðarákall vegna vannæringar barna í Nígeríu

Neyðarsöfnun í haust á vegum Unicef á Íslandi fyrir börn í Nígeru þar sem safnað var fyrir meðferð við vannæringu. Talið er að nærri 75.000 vannærð börn í norðausturhluta Nígeríu séu í lífshættu.

EFLA óskar öllum styrkhöfum til hamingju með styrkinn og megi verkefnum þeirra ganga sem allra best.

 Nánar um samfélagssjóð EFLU