Fréttir

Umhverfisáhrif vegsöltunar

26.2.2018

Í gegnum tíðina hefur vegsalt (NaCI) verið notað til hálkuvarna.  Erlendis hefur verið sýnt fram á neikvæð umhverfisáhrif vegna vegsöltunar og þótti því ástæða til að fá mynd af ástandinu á Íslandi og meta hvort umhverfisáhrif af vegsöltun séu til staðar. EFLA vann skýrslu fyrir Vegagerðina um stöðuna og skoðaði fyrst og fremst áhrif vegsalts á grunnvatn.

  • Vegur
Notkun vegsalts á Íslandi hefur aukist töluvert síðustu árin, eða úr 2.800 tonnum veturinn 1998-99 í um 27.000 tonn veturinn 2011-2012. Mest hefur notkunin verið á þéttbýlissvæðum og á meginleiðum á milli þéttbýliskjarna á suðvesturhorninu. Þess má geta að ekki eru til tölur um notkun vegsalts síðastliðin fimm ár.

Erlendis þar sem vegsöltun er töluverð, líkt og í Svíþjóð, Noregi og Bandaríkjunum, hafa rannsóknir sýnt fram á að vegsöltun getur haft töluverð neikvæð áhrif á  grunn- og yfirborðsvatn og skaðað jarðveg og gróður. Í Svíþjóð er markvisst unnið að því að draga úr notkun vegsalts til að forðast óæskileg umhverfisáhrif saltsins.

Heildarnotkun vegsalts á Íslandi - 2006-2012
Tonn/ár
ÁrSaltnotkun tonn/ár
2006 14161
2007 19679
 2008  15675
 2009  14089
 2010  15746
 2011  13168
 2012  26557

Víðtæk áhrif ekki til staðar

Forathugun EFLU leiddi í ljós að þrátt fyrir mikla vegsaltnotkun hér á landi hafa ekki komið fram kvartanir vegna umhverfisáhrifa vegsalts og ekki hefur verið vart víðtækra áhrifa vegsalts á grunnvatn. Það virðist því að umhverfisáhrif á grunnvatn vegna vegsöltunar hér á landi séu almennt hverfandi. Heildarnotkun vegsalts hér á landi er líklega aðeins brot af því sem berst frá hafinu inn á landið. Líklegasta skýringin á litlum áhrifum á grunnvatnið er að hér á landi er frekar strjálbýlt, vegnetið gisið og úrkoma mikil sem hefur þynningaráhrif. Ísland hefur að auki ákveðna sérstöðu hvað þetta snertir, hér er mikið til af hreinu neysluvatni sem er nánast meira og minna allt grunnvatn.

Lítilsháttar hækkun mældist á styrk klóríðs vegna vegsöltunar í tveimur borholum, við Litlu kaffistofuna og Waldorfskóla. Borholurnar eru staðsettar nálægt þjóðveginum yfir Sandskeiði en sá vegur er oft mikið saltaður. Það hafa ekki komið fram greinilegar hækkanir á klóríðstyrk vegna vegsöltunar í borholum sem eru lengra frá þjóðvegi.

Helstu umhverfisáhrif

Hár klóríðstyrkur í vatni leiðir af sér tæringarhættu og getur haft áhrif á bragðgæði vatns. Aukið saltstreymi í yfirborðsvatn getur leitt af sér efnalagskiptingu, aukið málmainnihald vatnsins og haft skaðleg áhrif á lífríkið í vatninu. Jafnvel hafa komið fram áhrif af vegsöltun á jarðgerð, gróður og dýralíf. 

Þurfum að vera á varðbergi

Þó svo að ekki mælast mikil neikvæð umhverfisáhrif á grunnvatn hér á landi er full ástæða til að vera á varðbergi og fylgjast með þróuninni. Ljóst er að saltnotkun getur verið töluverð á einstaka vegi og þar má búast ið staðbundnum umhverfisáhrifum í nánast umhverfi vegarins. 

Skýrslan