Fréttir


Fréttir

Umhverfislegur ávinningur endurvinnslu glers

18.8.2015

EFLA verkfræðistofa hefur unnið mat á umhverfisáhrifum og umhverfislegum ávinningi af söfnun, útflutningi, flokkun og endurvinnslu umbúðaglers frá Íslandi.
  • Endurvinnsla

Magn glers á markaði á Íslandi er á annan tug þúsunda tonna og er um helmingur þess skilaskyldar glerumbúðir sem í dag eru endurunnar erlendis. Afganginum af glerinu er urðaður.

Verkefnið var unnið fyrir Endurvinnsluna hf. og Úrvinnslusjóð og var markmið þess að meta hvort það sé umhverfislegur ávinningur af útflutningi glers til endurvinnslu þar sem í undirbúningi er söfnun og endurvinnsla á öllu gleri vegna ákvæða í Evrópulöggjöf. Í greiningunni er notuð aðferðarfræði vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment, LCA) og eru umhverfisáhrif metin fyrir 10 mismunandi umhverfisáhrifaflokka.

Niðurstöður greiningarinnar sýna að þegar á heildina er litið þá dregur söfnun, flutningur, flokkun og endurvinnsla glers úr umhverfisáhrifum í öllum umhverfisáhrifaflokkum. Ástæðan fyrir því er sú að endurvinnsla á gleri kemur í veg fyrir umhverfisáhrif sem annars myndu verða við öflun og fullvinnslu nýrra hráefna og við bræðslu nýrra hráefna í gler. Ef glerkurl er notað í glerframleiðslu þarf minni orku í bræðslunni heldur en ef ný hráefni væru brædd í gler og sömuleiðis sparast losun koltvísýrings.
Það borgar sig því út frá umhverfislegu sjónarhorni að safna, flytja út, flokka og endurvinna umbúðagler frá Íslandi.

EFLA gerir vistferilsgreiningar og reiknar kolefnisspor fyrir ólíka atvinnugeira

Það hefur færst í vöxt að umhverfisáhrif séu metin með aðferðafræði vistferilsgreiningar, þ.e. aðferð þar sem umhverfisáhrif vöru eða þjónustu eru metin "frá vöggu til grafar". Með því er búið að taka með í reikninginn vinnslu hráefna úr jörðu, framleiðslu, alla flutninga, notkun og förgun. Fást þannig heilstæðar upplýsingar um umhverfisáhrif vöru eða þjónustu. Vistferilsgreiningar hjá EFLU eru unnar í samræmi við alþjóðlegu staðlana ISO 14040 og ISO 14044 um gerð vistferilsgreininga.

EFLA verkfræðistofa hefur áralanga reynslu af gerð vistferilsgreininga sem og útreikningi á kolefnisspori og eru greiningarnar nú orðnar hátt á þriðja tug fyrir ólíka atvinnugeira; þ. á m. orku-, matvæla-, bygginga- og úrgangsgeirann. Um þessar mundir stendur yfir vinna við greiningar fyrir vatnsaflsvirkjanir, vindmyllur og flutningskerfi raforku.

Vistferilsgreining er vel til þess fallin að meta umhverfislegan ávinning á mismunandi lausnum, til að greina og bæta ferla í starfsemi og sem öflugt tól í vöruþróun. Vistferilsgreining er oft gerð samhliða kostnaðargreiningu og má þannig meta mismunandi valkosti í vöruþróun eða þjónustu með tilliti til kostnaðar og umhverfissjónarmiða. Með vistferilsgreiningum fæst einnig kolefnisspor viðkomandi vöru eða þjónustu.

Frétt á mbl.is tengt verkefninu