Fréttir


Fréttir

Umhverfisvöktun iðnaðarsvæðis á Grundartanga

16.4.2014

EFLA hefur tekið saman niðurstöður umhverfisvöktunar iðnaðarsvæðiðsins á Grundartanga fyrir árið 2013. Þetta er fjórða árið í röð sem EFLA tekur saman niðurstöður þeirra sérfræðinga sem koma að vöktuninni. Norðurál og Elkem Ísland standa að vöktuninni sem fór fram samkvæmt umhverfisvöktunaráætlun sem gildir til ársins 2021.
  • Álver Norðuráls við Grundartanga í Hvalfirði

Markmiðið með vöktuninni er að meta þau áhrif á umhverfið sem starfsemin á iðnaðarsvæðinu við Grundartanga veldur. Eftirfarandi þættir voru vaktaðir: loftgæði (andrúmsloft og úrkoma), ferskvatn, lífríki sjávar (kræklingur), sjór við flæðigryfjur, gróður (gras, lauf og barr) og grasbítar (sauðfé og hross), auk þess sem vöktun hófst á sjávarseti.

Iðjuverin uppfylla öll viðmið sem tilgreind eru í íslenskum reglugerðum og starfsleyfum, með einni undantekningu. Sólarhringsmeðalstyrkur brennisteinstvíoxíðs fór 9 sinnum yfir skilgreind loftgæðamarkmið, en leyfilegt er að fara yfir þau mörk sjö sinnum árlega. Ekki eru skilgreind íslensk viðmiðunarmörk í reglugerðum og starfsleyfum fyrir gróður, grasbíta, úrkomu eða sjávarset.

Hægt er að nálgast skýrsluna á heimsíðu Norðuráls og Umhverfisstofnunar.