Fréttir


Fréttir

Rannsóknir við Finnafjörð

30.8.2013

Allt frá árinu 2012 hefur EFLA unnið að málefnum hugsanlegrar Finnafjarðarhafnar með sveitarfélögunum Vopnafjarðarhreppi, Langanesbyggð og fyrirtækinu Bremenports í Þýskalandi.
  • Starfsmenn á sveitavegi
    Myndin sýnir hópinn sem skoðaði aðstæður í Finnafirði

Bremerhaven höfn er fjórða stærsta höfn í Evrópu og alfarið í eigu Bremen. Fyrr á árinu komu sérfræðingar félagsins til landsins og áttu viðtöl við sérfræðinga á ýmsum sviðum hér á landi. Við það tækifæri komu sérfræðingarnir víða við á Íslandi og sinntu störfum í Finnafirði sem er rétt sunnan við Þórshöfn á Langanesi. Í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til Þýskalands í sumar voru áform Bremenports fyrst gerð opinber. Við það tækifæri var m.a. farið yfir málið með kanslara Þýskalands og ráðherra málaflokksins í sambandsríkinu Bremen. Mikill stuðningur er um áformin.

Þann 27. ágúst komu eftirtaldir aðilar til landsins vegna áforma Bremenports. Aðstoðarráðherra fjármála, hafnar- og atvinnumála í Bremen, Dr. Heiner Heseler ásamt yfirmanni erlendra samskipta í ráðuneytinu Christian Gutschmith. Auk þeirra voru þrír fulltrúar Bremenports með í för, forstjórinn Robert Howe, yfirmaður erlendra verkefna Uwe Will og yfirverkfræðingurinn Ernst Schröder. Einnig var með í för fjármálastjóri Eurogate, Carl Augustin. Eurogate er stærsti rekstraraðili hafna í Evrópu. Bremen fer með 50% hlutafjár í Eurogate.

Um morguninn var flogið til Þórshafnar ásamt fulltrúum frá þýska sendiráðinu, sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps, oddvita Langanesbyggðar og lögfræðingi sveitarfélagsins og tveimur fulltrúum EFLU verkfræðistofu og fundað með sveitarstjórnarfólki í Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi. Eftir það voru aðstæður skoðaðar við Finnafjörð. Eftir hádegi voru áformin kynnt fyrir 6 ráðherrum ríkisstjórnar Íslands og þingmönnum svæðisins í Reykjavík. Síðari hluta dags var svo fundað með forseta Íslands á Bessastöðum. Góður stuðningur er við verkefnið af hálfu stjórnvalda á Íslandi.

Bremenports mun stofna fyrirtæki á Íslandi á næstunni og mun það félag standa að nauðsynlegum rannsóknum og athugunum á svæðinu. Þær snúa að uppsetningu mælitækja á sjó og landi, umhverfisrannsóknum og jarðtæknirannsóknum svo fátt eitt sé nefnt. Rannsóknarsvæðið er bæði á landi og í sjó og er hlutinn á landi um 1000 ha að stærð. Áætlað er að rannsóknar og úttektarvinna muni taka minnst 3 ár. Fyrsti áfangi rannsókna mun kosta um 45 mkr og fara fram árið 2014. Að þessari vinnu munu koma ýmsir sérfræðingar hér á landi. Einungis að undangengnum rannsóknum, og að því gefnu að niðurstöður þeirra verði jákvæðar, verður hugað að hönnun og byggingu hafnarmannvirkja. Það má því fyrst reikna með framkvæmdum eftir 5-8 árum héðan í frá.

Áður birt frétt á vef EFLU