Fréttir


Fréttir

Uppbygging ferðamannaaðstöðu við Raufarhólshelli

3.1.2017

Mikil uppbygging er hafin við Raufarhólshelli og mun þar rísa þjónustuhús, göngustígar og göngupallar smíðaðir, bílastæðum fjölgað ásamt því að hellirinn verður lýstur upp að hluta. Raufarhólshellir er staðsettur í Þrengslunum rétt áður en farið er í áttina til Þorlákshafnar.
  • Raufarhólshellir

Hellirinn er um 1360 metra langur og um 10 metra hár. Í lofti hellisins hanga þúsundir tilkomumikilla hraunkerta og tveggja metra hraunfoss er í einum botni hans. Hellirinn er afar vinsæll ferðamannastaður og talið er að yfir 20.000 manns heimsæki hellinn árlega.

Umgengni við svæðið hefur verið afar slæm og hvorki salernisaðstaða eða þjónustuhús til staðar fyrir ferðamenn. Landeigendur stóðu því frammi fyrir þeirri ákvörðun að loka svæðinu alveg eða ráðast í uppbyggingu á staðnum.

Ábyrgðarsvið og samræmd ráðgjöf EFLU

EFLA verkfræðistofa sér um alla ráðgjöf við framkvæmdirnar ásamt eftirfarandi verkefnum: 

- Breyting á aðalskipulagi

- Deiliskipulag fyrir svæðið, vatnsveita og fráveita ásamt jarðtæknilegri úttekt
- Hönnun palla og trappa í hellinum þar sem aðstæður eru hvað erfiðastar yfirferðar
- Lýsingarhönnun í hellinum
- Úrbætur á aðkomuvegi og stækkun bílaplans
- Þvívíddarskönnun á hellinum og líkan útbúið
- Öryggishönnun á svæðinu

Arkís arkitektar hanna þjónustuhús við hellinn.

Fyrirhuguð opnun Raufarhólshellis fyrir heimsóknir ferðamanna er næsta vor.