Fréttir


Fréttir

Uppruni svifryks í Reykjavík að stærstum hluta frá umferð

7.7.2017

EFLA verkfræðistofa hefur staðið að rannsókn á uppruna svifryks í Reykjavík sem styrkt var af  rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. 

  • Svifryk í Reykjavík
Rannsóknin var gerð á þann hátt að svifryki minna en 10 µm að stærð (PM10) var safnað á síur með sérstökum svifrykssafnar sem staðsettur var á þaki loftgæðastöðvarinnar við gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar. Sýnatakan fór fram frá miðjum mars fram í maí árið 2015. Ryksýnin voru síðan efnagreind  með plasma-massagreini og fjölbreytulíkan var útbúið til að rekja uppruna svifrykssins.

Helstu niðurstöður


Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að stór hluti eða yfir 80% af mældu heildar svifryki (malbik 48,8%, sót 31,2% og bremsur 1,6%) má rekja beint til bílaumferðar. Hlutföll einstakra upprunaefna í svifrykinu reyndust vera:  Malbik 48.8%, sót 31,2%, jarðvegur 7,7%, bremsur 1,6% og salt 3,9%. Gera má ráð fyrir að svifryk frá malbiki og sóti hafi neikvæð heilsufarslegáhrif og þá sérstaklega sótið sem er mjög fínt ryk sem inniheldur ýmis eiturefni sem getur borist langt niður í öndunarfæri.

Svifryksmengun frá malbiki hefur verið þekkt lengi og lagt hefur verið í ýmsar aðgerðir til að draga úr þeirri mengun. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að hlutfall malbiks í svifryki er enn töluvert hátt og því full ástæða til að halda áfram að leita leiða til að draga úr þeirri mengun.

Sót í svifryki hefur vaxið mjög síðustu ár


Hlutfall sóts mældist svipað og mældist í sambærilegri rannsókn sem gerð var 2013 eða um 31%. Niðurstöðurnar styðja eindregið þann grun að vægi sóts í svifryki hafi vaxið mjög á síðustu árum sem má sennilega rekja til mikillar aukningar í bílaumferð og hækkandi hlutfalls díselbíla.  Til að draga úr mengun frá bifreiðum hafa verið gerða auknar kröfur á bílaframleiðendur varðandi minnkun á útblástursmengun bílvéla og einnig hafa nokkrar erlendar borgir  takmarkað eða hyggjast takmarka umferð díselbíla. Vegna þess hversu hlutfall sóts er að mælast hátt í svifrykinu og vegna neikvæðra heilsufarsáhrifa þess er talinn  ástæða til að rannsaka þennan mengunarþátt nánar og skoða leiðir til að draga úr sótmengun t.d. með takmörkun á umferð díselbíla sem uppfylla ekki ákveðin útblástursskilyrði.

Höfundar skýrslunnar sem ber nafnið „Uppruni svifryks í Reykjavík“ eru Páll Höskuldsson, EFLU verkfræðistofu og Arngrímur Thorlacius, Landbúnaðarháskóla Íslands.

Lesa skýrslu.