Vaxandi umsvif EFLU í olíuiðnaði
-
Skjámynd hermis, sem líkir eftir borbúnaði olíuborpallsins Brage
Til þessa hefur EFLA komið aðallega að fjórum ólíkum viðfangsefnum á olíuborpöllum í Noregi.
EFLA hefur tekið að sér forritun og gangsetningu á stjórnkerfi sem meðhöndlar og fylgist með ástandi ?leðjunnar" sem dælt er niður með bornum og skiljukerfi sem tekur við efninu þegar það kemur upp aftur. Stöðugt er fylgst með ástandi efnisins bæði af kerfinu og jarðfræðingum borpallsins. Leðjan gegnir veigamiklu hlutverki við borunina. Hlutverk hennar er m.a. að kæla borkrónu borsins, flytja burt borsvarf, gefa upplýsingar um efnasamsetningu jarðlaganna sem borað er í gegnum og halda þrýstingi á holunni til að hún falli ekki saman.
Annað verkefni sem EFLA hefur tekið að sér er forritun og gangsetning á neyðarstöðvunarkerfi borpalls. Kerfið les meðal annars stöður allra bruna og gas skynjara borpallsins og sér um að grípa sjálft inn í ef hættuástand skapast til að tryggja öryggi á pallinum. Inngripin geta t.d. falist í að einangra einstök svæði eða að slökkva á öllu rafmagni í borpallinum.
Þriðja viðfangsefnið er forritun á hermi sem líkir eftir borbúnaði olíuborpallsins Brage. Fulltrúar Statoil í Noregi, sem eiga og reka Brage borpallinn, hafa líst yfir ánægju með það verkefni sem EFLA og Aker unnu saman. Nýverið fór hermirinn í gegnum úttektir og próf hjá notandanum og stóðst verkið allar prófanir án athugasemda.
Einnig hefur EFLA komið að minni þjónustuverkum við ýmis stjórnkerfi á olíuborpöllum.
Borpallurinn Brage, ljósmyndari: Øyvind Hagen - Statoil