Fréttir


Fréttir

Verðlaun í hugmyndasamkeppni um varmaorku

Samkeppni, Hugmyndakeppni, Hafsteinn Helgason, Varmaorka

29.5.2018

Nýverið stóðu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Orka náttúrunnar fyrir hugmyndasamkeppni um nýtingu varmaorku á Suðurlandi. EFLA verkfræðistofa með Hafstein Helgason, sviðsstjóra viðskiptaþróunar, í forsvari sendi inn tillögu í samkeppnina sem vann til verðlauna. 

  • Hugmyndasamkeppni varmaorka
    Hafsteinn Helgason og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ráðherra atvinnu- og nýsköpunarmála. Mynd: Víðir Björnsson, Orka náttúrunnar.

Tilgangur samkeppninnar var að safna hugmyndum sem bæta nýtingu varmaorku sem finnst á Suðurlandi. Í henni felst nýting á heitu vatni, gufu eða jafnvel öðrum efnum tengdum jarðvarma svo sem uppleystum steinefnum og ýmsum lofttegundum

Ræktun í lágum gróðurhúsum allt árið

Hugmynd EFLU fólst í aðferð við að nýta lágvarmaorku til ræktunar á plöntum sem ekki teljast hefðbundnar á Íslandi, eins og t.d. hvítlauk. Einnig myndi aðferðin auka möguleika á heilsásræktun á árstíðarbundnum plöntum eins og rabbabara. Töluvert magn er flutt inn árlega af þessum plöntum, 100 tonn af hvítlauk og 60 tonn af rabbabara. Aðgengi að lágvarmaorku er gott á Suðurlandi, frá Þorlákshöfn og austur í Rangárvallarsýslur og upp að jaðarmörkum hálendisins.

Við ræktunina er miðað við að nota stöðluð, mjög lág, gróðurhús af sérstakri gerð sem eru samsett á einfaldan hátt  úr hverfisteyptum einingum. Hitun þeirra og vökvun fer fram með hefðbundnum plastlögnum sem hengdar eru á langhliðar húsanna. Með slíkri upphitun er mögulegt að rækta þessar afurðir allt árið um kring. Með varmagjafa í svo litlum reitum er auðvelt að ná réttu hitastigi og kjöraðstæður skapast við ræktun.

Margvíslegur ávinningur

Með tillögunni er innlend framleiðsla aukin og innflutningur minnkaður. Ný störf geta orðið til á ræktunarstað eða leitt til að aukabúgreinar þeirra sem búa nú þegar á jarðhitajörðum. Þá er hægt að þróa aðferðir við nýtingu afurðarinnar og stuðla þannig að nýsköpun.

Í umsögn dómnefndar kom fram: „Tillagan felur í sér nýbreytni í ræktun afurða þar sem sérhæfð gróðurhús nýrrar gerðar nýta lághita jarðvarma. Um er að ræða sveigjanlega og heildstæða tillögu sem getur dregið úr innflutningi matvæla og býður upp á vinnslu sérhæfðra afurða. Gera má ráð fyrir aukinni fjölbreytni í atvinnulífi og jákvæðum samfélagslegum áhrifum.“

Aðferðin sannreynd

Til gamans má geta að Hafsteinn Helgason býr í Laugarási  í Biskupstungum og er áhugamaður um ræktun á plöntum sem teljast ekki hefðbundnar á Íslandi. Hann hefur náð góðum árangri í ræktun hvítlauks og rabbabara og hefur því sannreynt ágæti ræktunaraðferðarinnar. Til að auka verðmæti og notkunargildi rabbabarans hefur Hafsteinn hefur unnið að þróun á rabbabaradufti sem hefur verið notað með góðum árangri sem fylling í konfektmola og komið þannig í staðinn fyrir dýran möndlumassa. Rabbabarann má þurrka með varmaorkunni og auka enn frekar nýtingu orkunnar.

Ferðamannalón hlaut fyrstu verðlaun

Úrslit keppninnar voru kunngjörð 25. maí síðastliðinn og hlaut Lón á svörtum sandi (Black Beach Lagoon) fyrstu verðlaun. Verðlaunahugmyndin snýst um að byggja upp ferðamannalón með heitu vatni í svörtum fjörusandinum við Þorlákshöfn. Önnur úrslit keppninnar má sjá á vef ON.
Frá verðlaunaafhendingunniFrá verðlaunaafhendingunni. Mynd: Víðir Björnsson, Orka náttúrunnar