Fréttir


Fréttir

Viðurkenning fyrir Lofsvert lagnaverk

26.5.2017

EFLA hlaut viðurkenningu fyrir „Lofsvert lagnaverk 2016“ en verkið sem Lagnafélag Íslands lofaði að þessu sinni var hátæknisetrið Alvotech i Vatnsmýri.

  • Viðurkenning forseta Íslands Lagnaverk
    Hjalti Geir Unnsteinsson, rafmagnstæknifræðingur hjá EFLU tekur við verðlaununum frá forseta Íslands.
EFLA fékk viðurkenningu fyrir brunahönnun, hönnun hljóðvistar, lýsingarhönnun og raflagnahönnun rafafls að öllum búnaði. Það var Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 22. maí síðastliðinn. Í umsögn viðurkenninganefndar Lagnafélagsins segir að til verksins voru kallaðir færustu sérfræðingar á sviði líftæknilyfja sem hönnuðu eitt fullkomnasta þróunarsetur sem reist hefur verið á þessu sviði á heimsvísu. Stórt og öflugt teymi innlendra og erlendra ráðgjafa og verktaka unnu vel saman í undirbúningi og á framkvæmdatímanum. 

Hátæknilegt mannvirki


Hátæknisetrið er bæði flókið og afar háþróað mannvirki með rannsóknarstofum, skrifstofum og sérhæfðu framleiðslusvæði sem líkja má við skel utan um viðkvæman líkama þar sem líffæri með flókin hlutverk sinna hvert sínu verki. Þessum líkama er þjónað af æðakerfi sem flytur margar tegundir efna, allt frá fljótandi köfnunarefni í ryðfríum stálpípum í lofttæmdri umgjörð, yfir í heitt vatn og gufu við hátt hitastig. 

Þess má geta að EFLA hefur hlotið verðlaunin þrisvar sinnum áður:

  • 2013: Hönnun stjórnbúnaðar lagnakerfa og uppsetningu hússtjórnakerfis í húsakynnum Lýsis 
  • 2012: Lagnaverkið í Menningarhúsinu Hofi 2012
  • 2008: Brunatæknilega hönnun grunnskóla Ísafjarðar 2008. 
Viðurkenninganefnd Lagnafélags Íslands hefur starfað frá árinu 1990 og hefur veitt viðurkenningu fyrir lofsverð lagnaverk á hverju ári síðan. 
Hér má sjá frekari upplýsingar um verðlaunin.