Fréttir


Fréttir

Við flytjum saman

28.8.2010

Starfsfólk EFLU verkfræðistofu er stolt af nýjum höfuðstöðvum fyrirtækisins að Höfðabakka 9 í Reykjavík. Þar með hafa fjórar starfsstöðvar EFLU á höfuðborgarsvæðinu verið sameinaðar í endurnýjuðu 3.800 fermetra húsnæði.
  • Afhending lykla við Höfðabakka 9

EFLA varð til árið 2008 við sameiningu verkfræðistofanna Afls, RTS, Línuhönnunar og dótturfélagsins Verkfræðistofu Suðurlands. Hlutverk EFLU er að koma fram með lausnir sem stuðla að framförum og efla samfélagið, með alhliða ráðgjöf í verkfræði og tækni. Sameining starfsstöðva fyrirtækisins á höfuðborgarsvæðinu á einum stað er mjög mikilvæg. Starfsemin byggir á þekkingu og samvinnu mannauðs fyrirtækisins, og treystir sameinuð starfsemi því enn frekar grundvöll þjónustu EFLU við viðskiptavini.

Hið endurnýjaða húsnæði mun fá alþjóðlega viðurkennda BREEAM vottun fyrir vistvæn og heilsusamleg mannvirki.  Verður það í fyrsta skipti sem endurnýjað húsnæði á Íslandi fær vottun af þessu tagi. EFLA sinnir margvíslegum verkefnum í umhverfismálum og vistvænni byggð, og er við hæfi að hlúa að þeim þáttum í nýjum höfuðstöðvum fyrirtækisins.

Húsnæði EFLU er í eigu fasteignafélagsins Reita sem kom mjög til móts við þarfir EFLU í endurnýjun húsnæðisins. EFLA sá alfarið um verkfræðilega hönnun breytinga og undirbúning BREEAM vottunar.