Fréttir


Fréttir

Vinna próteinduft úr mysu sem fellur til

14.2.2017

Undanfarna mánuði hefur EFLA verkfræðistofa unnið að spennandi verkefni með Heilsupróteini ehf. Viðfangsefnið er smíði nýrrar verksmiðju á Sauðárkróki sem mun vinna próteinduft úr mysu sem annars fellur til við framleiðslu osta á Sauðárkróki og Akureyri.

  • Mysupróteinverksmiðja

Spornað gegn sóun matvæla

Til þessa hefur mysunni verið fargað og er því bæði verið að sporna gegn sóun matvæla, minnka umhverfismengun og ná fram aukinni verðmætasköpun.

Framleiðsluferlið er hefðbundið og eru helstu einingar verksmiðjunnar: gerilsneyðing, UF sía,
400 bara dæla og láréttur þurrkari. Þurrkarinn er knúinn með heitu vatni, gufu og rafmagni.

Orkugjafinn, sem er heitt vatn og gufa, er hannaður á iðnaðarsviði EFLU í samstarfi við bandarísku fyrirtækin Customs Fabrication and Repair með starfsstöðvar í Marshfield, Wisconsins og Mora í Minnisota og Complete Filtration Resources, einnig með starfstöð í Marshfield, Wisconsin. Þess má geta að EFLA hannaði svipaðan orkugjafa fyrir Mjólkursamsöluna á Selfossi þar sem undanrenna er þurrkuð.

Mysupróteinið má nýta sem hluti af fæðubótarefnablöndum, sömu tegundar og íþróttafólk þekkir sem "whey protein." Til að byrja með er stefnt á sölu afurðarinnar erlendis en síðar meir til neyslu hérlendis.

Farsælt samstarf EFLU, KS og C.F. Rogers

EFLA, í samstarfi við forsvarsmenn Heilsupróteins, hefur yfirumsjón með verkefninu og mun fylgja því allt að gangsetningu verksmiðjunnar.

Starfsmenn EFLU hafa m.a. hannað gufu- og vinnslulagnir, spennustöð, móttöku fyrir mysuþykkni, auk allrar kerfishönnunar og forritunar. Þá mun EFLA sjá um CE merkingu búnaðarins.

Bandarísku fyrirtækin Custom Fabrication and Repair og Complete Filtration Resources sjá um smíði tækjanna sem verða notuð í framleiðslunni en þeir hafa mikla reynslu og þekkingu af framleiðsluferlum fyrir próteinvinnslu.

Áætlað er að framleiðsla í nýju verksmiðjunni hefjist um mitt ár 2017.