Landmótun og stækkun Jaðarsvallar
Jaðarsvellir, Stækkun á jaðarsvelli, Golfklúbbur Akureyrar
Mat á umhverfisáhrifum haugsetningar, landmótunar og stækkunar á Jaðarsvelli.
Nú eru í lögð fram til kynningar drög að tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum haugsetningar, landmótunar og stækkunar á Jaðarsvelli á Akureyri. Framkvæmdaraðili er Akureyrarbær en rekstraraðili Jaðarsvallar er Golfklúbbur Akureyrar. Í gildi er deiliskipulag fyrir Jaðarsvöll frá árinu 2011 sem gerir ráð fyrir stækkun vallarins. Þar að auki er unnið að breytingu á deiliskipulaginu sem gerir ráð fyrir haugsetningu og landmótun á svæðinu.
Um verkefnið
Starfræktur hefur verið golfvöllur að Jaðri á Akureyri í hartnær hálfa öld en allt frá árinu 2007 hafa verið áform um stækkun vallarins samkvæmt samningi milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar.
Til stendur að flytja um 500.000 m3 af ómenguðum jarðvegi sem fellur til vegna jarðvegsskipta við uppbyggingu í bænum inn á land golfvallarins. Þar verður gengið frá jarðveginum jafnóðum og hann mótaður að hönnun stækkunar golfvallarins. Framkvæmdartími er um 20-30 ár, allt eftir hraða framkvæmda í bænum og því hver eftirspurn eftir stækkun golfvallarins verður. Á svæðinu er þegar leyfi fyrir moldarlosun á 49.000 m3 og hefur hluti þeirrar heimildar nú þegar verið nýttur. Frágangur svæðisins verður í samræmi við frágangsáætlun og hönnun golfvallar.
Vegna umfangs haugsetningar fellur framkvæmdin undir flokk A skv. lið 2.01 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er því ávallt matsskyld: „Efnistaka og/eða haugsetning á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska 50.000 m² svæði eða stærra eða efnismagn er 150.000 m³ eða meira“.
Matsáætlun
Nú er til kynningar tillaga að matsáætlun, sem er verkáætlun fyrir komandi umhverfismat, en síðastliðinn júní kynnti Akureyrarbær drög að tillögu matsáætlunar og bárust engar athugasemdir. Í kjölfarið var unnið frekar að mótun tillögunnar og hefur Skipulagsstofnun nú tekið hana til formlegs umsagnarferlis. Þar er óskað umsagna og almenningi gefinn kostur á að gera athugasemdir sem Akureyrarbær hefur tækifæri til að bregðast við. Að kynningartíma loknum tekur Skipulagsstofnun ákvörðun um matsáætlunina.
Megintilgangur matsáætlunar er að fá fram ábendingar leyfisveitenda framkvæmdarinnar, sérfræðistofnana, hagsmunaaðila og almennings á útfærslum framkvæmdar, fyrirhuguðum áherslum umhverfismatsins og þeim gögnum sem ætlunin er að nýta til að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Mikilvægt er á þessu undirbúningsstigi matsins að fá fram sem flestar ábendingar sem snúa að tilhögun þess, t.d. gagnaöflun, rannsóknum og valkostum. Jafnframt er óskað eftir ábendingum um viðkvæm svæði, sérstaka hagsmuni eða annað er nýst gæti við komandi matsvinnu.
Athugasemdafrestur
Allir geta gert skriflegar athugasemdir við tillöguna innan tilgreinds kynningartíma og skulu þær berast skriflega til Skipulagsstofnunar eða með tölvupósti.
Athugasemdir í bréfpósti skal senda á:
Skipulagsstofnun
Borgartúni 7b
105 Reykjavík
Athugasemdafrestur er til og með 27. ágúst 2018.
Skjöl
Tillaga að matsáætlunDrög að tillögu að matsáætlun